139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

staða Hæstaréttar Íslands í ljósi málaferla fyrir landsdómi.

[14:20]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki miklu inn í þessa umræðu að bæta. Það er auðvitað búið að koma hér fram að við erum að kalla saman landsdóm ofan í þá stöðu að hér er mikið álag á dómskerfinu vegna bankahrunsins, en landsdómur á að koma saman við þessar aðstæður vegna þess að við tókum þá ákvörðun hér í þinginu fyrir stuttu. Það mun að sjálfsögðu auka enn frekar álagið á Hæstarétt og dómskerfið.

Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, það liggur í hlutarins eðli að líklegast er að efla þurfi Hæstarétt, a.m.k. tímabundið. Hæstv. dómsmálaráðherra Ögmundur Jónasson hefur einmitt sagt að það sé verið að leita eftir upplýsingum um hvað þetta muni þýða fyrir Hæstarétt og þá er ósköp lítið annað að gera en að bíða eftir að þær upplýsingar berist og bregðast svo við þeim þegar þar að kemur. Þetta held ég að liggi bara mjög ljóst fyrir í augnablikinu.