139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Málið sem við ræðum í dag er án efa það brýnasta sem uppi er í þjóðfélaginu um þessar mundir og ég vil þakka fyrir tækifærið til að ræða það hér í þingsal.

Allt frá þjóðveldisöld hefur það verið rauður þráður í hugsun þjóðarinnar að við berum sameiginlega ábyrgð hvert á öðru. Sú hugsun sést í því að á þjóðveldisöld var lögfest skattheimta, þ.e. tíund, til að tryggja framfærslu allra. Nú á tímum þarf þessi hugsun að ná yfir það að öryggi fjölskyldna sé ekki ógnað, allir hafi þak yfir höfuðið, viti hver næturstaður þeirra er. Hún þarf að ná til þess að allir hafi framfærslu og sömu réttindi.

Nú liggur fyrir að þessu öryggi, eins og ég áður sagði, er ógnað vegna forsendubrestsins sem varð við bankahrunið. Á einn eða annan hátt hafa allir Íslendingar fundið fyrir því en við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að sumar fjölskyldur standa miklu verr eftir hrun en aðrar. Vilji menn kalla það almennar aðgerðir að tryggja öllum fjölskyldum öruggt húsaskjól og viðunandi skuldastöðu er ég fylgjandi almennum aðgerðum.

Menn mega ekki festast í því að benda hver á annan eins og komið hefur fram í umræðunni. Hv. þm. Bjarni Benediktsson kom inn á það áðan hvernig allir þingmenn tóku þátt í því í vor að vinna að lausnum. Nú er hins vegar ljóst að þær lausnir duga ekki og þá mega þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, ekki rísa upp á afturlappirnar og benda hver á annan og segja að þetta sé hinum að kenna. Það gerir ekki nokkurt einasta gagn. Við tókum öll þátt í að leysa þetta mál á sínum tíma, núna erum við væntanlega öll tilbúin til að bæta í vegna þess að við sjáum öll að það þarf að gera meira. Þá eigum við ekki að taka upp þann leik að benda hvert á annað. Það hefur engan tilgang.

Það er athyglisvert, virðulegi forseti, hversu fáir hafa farið í hina svokölluðu sértækri skuldaaðlögun eins og kemur fram í skýrslunni frá eftirlitsnefnd með sérstakri skuldaaðlögun. Hluti ástæðunnar kann að liggja í því að úrræðin hafi verið töluð niður, bæði hér innan húss og úti í samfélaginu. Ef svo er þarf að ráða bót á því. Hluti vandans liggur líka í því að stjórnvöld, þar með talin sveitarfélögin, hafa ekki komið inn í pakkann. Það kemur skýrt fram í skýrslunni. Mér finnst einboðið að bæði ríki og sveitarfélög verði á sama hátt og bankar og fjármálafyrirtæki að taka þátt. Þá er einnig víst að aðrir utanaðkomandi aðilar, svo sem byggingarvörufyrirtæki og fleiri, þurfi líka að koma að samkomulaginu.

Það þarf einnig að tryggja að þeim einstaklingum sem ákveða að sækja eftir sértækri skuldaaðlögun eða leita lausna hjá umboðsmanni skuldara verði sjálfkrafa veitt skjól fyrir uppboðum meðan verið er að vinna úr málum þeirra. Ég er sammála því sem kom fram í ræðu hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að í bili þurfum við að grípa strax til úrræða í þessum efnum en það má ekki bara gilda fram til mars á næsta ári. Úrræðið þarf að vera fyrir hendi þegar fólk þarf á því að halda.

Virðulegi forseti. Ég er sannfærður um að ef þingið er tilbúið til að vinna saman heils hugar að því að leysa úr vandanum getum við það. (Forseti hringir.) Það á að vera það eina sem við höfum áhuga (Forseti hringir.) á að gera í þessum málum.