139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram og vil leyfa mér að túlka hana á þann veg að hér hafi komið fram vilji hjá langflestum sem talað hafa um að ná sátt um þann brýna vanda sem blasir við. Ég vil taka undir með hv. þm. Eygló Harðardóttur að krafa fólksins er að við vinnum saman að lausn málsins, ekki bara hér í þessu húsi heldur í bönkunum og hjá lífeyrissjóðum, sýslumönnum, umboðsmanni skuldara o.s.frv. Það er viðfangsefnið fram undan að ná sátt í þessu máli.

Ég sagði það í ræðu minni og það kom fram hjá ýmsum hv. þingmönnum hér að árangurinn var ekki sem skyldi í vor þegar við fórum fram með margvíslegar aðgerðir fyrir skuldug heimili og ég viðurkenni það fúslega. Af því að hér hefur verið talað um að einungis 128 hafi nýtt sér sértæk úrræði hjá bönkunum, þá hafa þúsundir einstaklinga nýtt sér þúsund önnur úrræði en þau sértæku hjá bönkunum. Ég vil líka að það komi fram að alltaf var látið fylgja, þegar við settum fram þessi fjölþættu úrræði, að vel yrði fylgst með hvort þau mundu duga og þá yrði brugðist við aftur ef svo reyndist ekki. Það er það sem við erum að gera. Ég held að við stöndum frammi fyrir því að þau fjölmörgu úrræði sem til eru hafa ekki verið nýtt eins og skyldi, kannski af því að raddir hafa verið uppi um að það sé ekkert til staðar fyrir skuldug heimili o.s.frv. En um 60–80 þús. manns hafa nýtt sér þau mörgu úrræði sem við höfum sett fram.

Við verðum líka að viðurkenna það að svo er komið að fólk sem er þó með kannski 300 eða 400 þús. kr. í mánaðartekjur stendur ekki undir greiðslubyrði af venjulegu húsnæði. Þó að margt megi til taka má m.a. líta til þess að við lokuðum félagslega húsnæðiskerfinu og við byggjum á séreignarstefnu sem er þannig að láglaunafólk og fólk með meðaltekjur margt hvert getur ekki staðið undir sínu húsnæði. Við verðum líka að horfa til þess þegar við erum að fara yfir stöðuna núna að unga fólkið sem keypti íbúðir fyrir þrem, fjórum árum sér fram á, ef ekkert verður að gert, greiðslubyrði upp á 40–50% af lánum sínum næstu 30 árin og það er óboðlegt. Á þessum vanda þurfum við að taka.

Ég fór yfir það sem er á döfinni núna og ég vona að okkur auðnist gæfa til að vinna saman að þessum vanda. Mikilvægast þessa dagana er að taka á uppboðsmálunum sem ég hef miklar áhyggjur af og að hringt verði skipulega í hvern einasta af þeim 200–250 aðilum sem bíða þess núna að fara á nauðungaruppboð og farið verði í gegnum lausnir fyrir þetta fólk þannig að það þurfi ekki að missa heimili sín. Síðan bíða stóru verkefnin, eins og við höfum farið yfir hér, á næstu dögum og vikum.