139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

25. mál
[16:28]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessari tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur og fleiri, ég held að þarna sé á ferðinni mjög mikilvægt mál. Við vorum að ræða skýrslu eftirlitsnefndar um framkvæmd greiðsluaðlögunar í þinginu fyrr í dag. Í þeirri skýrslu, eins og hv. þingmaður kom inn á, kemur fram að ekki hefur gengið neitt gríðarlega mikið undan fjármálafyrirtækjunum í því að sinna því að aðstoða litlu fyrirtækin.

Á tímum þegar við erum að hugsa um að spara og hagræða á öllum sviðum og reynum að nota hverja krónu helst tvisvar ef við mögulega getum, sér hv. þingmaður fyrir sér að ráðgjafarstofa eins og þessi gæti til að mynda verið deild undir embætti umboðsmanns skuldara? Þar innan dyra er eða mun byggjast upp á næstu missirum þekking á því hvernig eigi að aðstoða við slíka úrvinnslu. Ég sé a.m.k. fyrir mér töluverð samlegðaráhrif og mig rennir grun í að hugmyndin hafi að einhverju leyti komið frá hugmyndinni um Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, þ.e. að þetta séu að vissu leyti systurstofnanir. Mig langar til að heyra hvort hv. þingmaður sér fyrir sér að þetta gæti orðið með þeim hætti.