139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

úrræði fyrir skuldara.

[14:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Að undanförnu hafa ráðherrar í ríkisstjórninni lýst vonbrigðum sínum með það hversu fáir hafa nýtt sér úrræði sem lögfest hafa verið á Alþingi, t.d. um greiðsluaðlögun. Það er skiljanlegt ekki síst í ljósi þess að við sjáum um þessar mundir alveg sláandi tölur í þessu efni, t.d. í fréttatíma Stöðvar 2 í gær þar sem dregið var fram að það eru einungis í kringum 20 mál sem fengið hafa endanlega afgreiðslu hjá umboðsmanni skuldara á þremur mánuðum. Gagnrýni okkar sjálfstæðismanna á tillögur ríkisstjórnarinnar fram til þessa hefur einmitt verið sú að þær hafi verið þunglamalegar, að fólk þurfi nánast að komast í gegnum nálarauga til að uppfylla þau skilyrði sem er að finna í lögunum. Við höfum séð hörmulegar afleiðingar þess að svona þröng skilyrði hafi verið sett, annars vegar á þessum lágu tölum en líka í þeim dæmum sem birtast okkur í fjölmiðlum, eins og t.d. eftir fréttatíma Stöðvar 2 í gær þar sem niðurbrotið fólk birtist á skjánum, fólk sem ætlaði að mæta til umboðsmanns skuldara í þeim tilgangi að fá aðstoð en kemur meira eða minna niðurbrotið úr þeim leiðangri sínum.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin viðurkenni ábyrgð sína á því að hafa smíðað kerfi sem tekur svona á móti fólki? Er ekki kominn tími til menn hætti að benda á fjölmiðlana eða aðra sem vekja athygli á úrræðunum, og líti í eigin barm og staðfesti það að skilyrðin hafa verið allt of og ströng og hafi gert fólki örðugt fyrir, að þau hafi beinlínis verið niðurlægjandi fyrir þá sem ætluðu sé að treysta á úrræðið? Það er fyrri spurning mín til hæstv. forsætisráðherra.

Ég vil síðan spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvað hún eigi við þegar hún segir í fjölmiðlum í dag að nú muni reyna á hina samfélagslegu (Forseti hringir.) sátt um niðurfærslu skulda. Er það skoðun hæstv. forsætisráðherra að það sé rétta leiðin að fara í almenna niðurfærslu skulda, eða hvað (Forseti hringir.) er verið að gefa í skyn?