139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

staðan í makrílviðræðunum.

[15:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum dögum hitti ég góðan vin minn sem er skipstjórnarmaður á uppsjávarskipi. Talið barst að makrílveiðunum og þeim ofsafengnu viðbrögðum sem við höfum mætt frá ESB og fleiri aðilum. Vinur minn skóf ekkert utan af hlutunum, sumt mundi væntanlega kalla á ádrepu úr forsetastóli ef ég endursegði allt orðbragð okkar beggja. En hann komst ákaflega vel að kjarna málsins þegar hann sagði við mig: Hvers konar afstaða er það hjá þessum þjóðum sem neita okkur um að komast að samningaborðinu? Makríllinn er kominn í miklum mæli inn í okkar lögsögu og ætlast þessir menn virkilega til þess að hann geti verið hér í fríu fæði og húsnæði til þess að þeir geti svo veitt hann að vild sinni en við fáum enga hlutdeild úr stofninum?

Mér finnst ekki hægt að orða þetta miklu betur með kjarnyrtum og skýrum hætti. Spurt er hvort við séum að stunda hér ólöglegar veiðar. Það er auðvitað fráleitt. Við erum óumdeilanlega strandríki og eigum tvímælalaust rétt á að eiga sæti við samningaborðið þegar verið er að takast á um veiðistjórn á makríl. Það eina sem er ólöglegt við þessa deilu er framferði Norðmanna og ESB sem með ólögmætum hætti hafa útilokað okkur frá samningaviðræðum um heildarstjórn makrílveiða í tíu ár.

Við erum ásökuð um óábyrgar veiðar. Það er sömuleiðis fráleitt og alveg út í loftið. Við Íslendingar höfum sýnt það í gegnum tíðina að við höfum verið talsmenn ábyrgra veiða, bæði úr deilistofnum okkar og ekki síður úr öðrum stofnum. Við höfum hins vegar ekki fengið viðsemjendur okkar, þar á meðal þá sem nú ásaka okkur um ábyrgðarleysi, til að stunda ábyrgar veiðar í öllum tilvikum. Kolmunninn er gott dæmi um þetta og ofveiði á þeim fiskstofni er núna að koma okkur öllum í koll. Við reyndum hvað eftir annað að fá þjóðirnar til að fallast á lægra aflamark en algjörlega án árangurs og það er núna að hitta þessar sömu þjóðir fyrir sem hegðuðu sér þannig með óábyrgum hætti.

Við gefum okkar kvóta út í makríl í upphafi og vilji aðrar þjóðir, til að mynda þjóðir ESB eða Norðmenn, taka tillit til þess er þeim það í lófa lagið ef einhver meining er á bak við þetta tal um ábyrgar veiðar. Síðan hafa Skotar og Írar ekki úr mjög háum söðli að detta, þeir veiddu 200 þús. tonn af makríl og síld umfram kvóta á árunum 2001–2008 og þetta er það sem heitir á góðri íslensku kvótasvindl og hér á landi a.m.k. varðar slíkt við lög, fyrir nú utan það að aflatölur ESB hafa nú ekki verið taldar áreiðanlegustu gögn í heimi fram að þessu.

Makrílveiðar okkar eru ábyrgar, þær fara fram innan okkar lögsögu, grundvallast á sömu reglum og aðrar veiðar íslenskra fiskiskipa. Okkar veiðar eru þess vegna ekki síður löglegar en veiðar ESB-ríkja og Norðmanna. Veiðar í úthafinu lúta reglum Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC. Ríki sem ekki sætta sig við tillögur þeirra hafa rétt til andmæla og eru þó ekki bundin af þeim. Ísland hefur mótmælt kvótabundinni úthlutun í makríl á úthafinu sem önnur aðildarríki að nefndinni hafa ætlað Íslandi og eru þess vegna ekki bundin af henni. Veiðar íslenskra skipa á úthafinu, komi til þeirra, munu að sjálfsögðu lúta öllum reglum NEAFC, öðrum en hvað varðar aflamagn, en Ísland hefur sett takmarkanir á það hversu mikinn afla íslensk skip mega veiða á úthafinu. Það sýnir síðan eðli þessarar deilu að ESB, eitt öflugasta ríkjasamband í heimi, hefur blákalt í hótunum við okkur en við þeim hótunum þurfum við að bregðast hart. Við þurfum að gera þessu ofríkisfólki grein fyrir því að það muni ekki komast upp með neitt af þessu taginu. Við getum ekki liðið það að Evrópusambandið reyni að neyta aflsmunar til þess að brjóta á bak aftur okkar löglegu veiðar í skjóli hótana, svo purkunarlausra hótana eins og þeirra sem við höfum séð upp á síðkastið.

Í þessari baráttu fyrir okkar rétti og okkar lögmætu og eðlilegu hagsmunum sem strandveiðiríkis í þessum skilningi eigum við Íslendingar að standa saman sem þjóð. Það er gríðarlega mikið í húfi. Við höfum náð miklum árangri eftir að farið var að stjórna makrílveiðum á þessu ári á grundvelli kvótakerfisins og þegar við hurfum frá hinum ólympísku óhagkvæmu veiðum. Eftir það jókst verðmætasköpun við makrílveiðarnar og meðaflanum í síld um hér um bil 5 milljarða kr. Verðmætaaukning á hvert veitt kíló tvöfaldaðist og margs konar atvinnusköpun úti um landið og fjárfesting sem okkur bráðliggur á átti sér stað. Heildarútflutningsverðmæti á makríl verður um 15 milljarðar kr. á þessu ári. Nú standa yfir, einmitt á þessari stundu, samningaviðræður í Lundúnum og við Íslendingar erum aðilar að þeim viðræðum. Vonandi leiða þær eitthvað jákvætt í ljós þótt viðbrögð ESB auki manni nú ekki beinlínis bjartsýni.

Í þessum viðræðum eigum við mjög góðan málstað að verja. (Forseti hringir.) Við eigum þess vegna að standa í lappirnar og standa á okkar eigin rétti þrátt fyrir purkunarlausar ofbeldishótanir sunnan úr Brussel.