139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá vitum við það alla vega að fólkið á landsbyggðinni á ekki von á liðsauka frá hæstv. ráðherra byggðamála þegar kemur að þessu mikilvæga máli. Málinu er lýst þannig að hér sé um að ræða mestu árásir á einstök samfélög frá upphafi. Hæstv. ráðherra segir okkur ekki frá því að hún hafi einhver áform um það að bregðast við með sérstökum hætti. Það liggur fyrir eins og svo sem við var að búast að hæstv. ráðherra styður fjárlagafrumvarpið, en ég hefði kannski ímyndað mér að hæstv. ráðherra hefði hugsað sitt mál eftir að fjárlagafrumvarpið kom fram og þessi miklu viðbrögð birtust á landsbyggðinni þar sem því var lýst að nánast væri verið að leggja þessi samfélög í rúst. Hæstv. ráðherra hefði sem ráðherra þessa málaflokks, byggðamálanna, getað brugðist við með einhverjum hætti, t.d. kallað til sín forsvarsmenn sveitarfélaganna og spurt um það með hvaða hætti væri hægt að beita einhverjum byggðalegum aðgerðum til að hamla gegn því sem verið er að gera með niðurskurðinum. Nú liggur það fyrir að hæstv. ráðherra hefur ekki nein slík áform. Þá vitum við það.