139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[15:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Þess ber að geta að það gilda ákveðin lög um það verk sem hér er lagt fram af hæstv. ráðherra, þ.e. stefnumótandi byggðaáætlun 2010–2013. Í þeim lögum er sagt fyrir um hvað slík áætlun á að fela í sér. Hér er hins vegar strax í upphafi þessarar þingsályktunartillögu, í aðdraganda hennar, sagt að þetta eigi fyrst og fremst að vera innlegg í ákveðna vinnu sem er kölluð Sóknaráætlun 20/20. Maður spyr sig: Hvar eru fyrirmæli um það í lögum um byggðaáætlun?

Ástæðan fyrir þeirri umræðu sem hv. þingmaður Einar K. Guðfinnsson vakti áðan er eðlilega tenging við umræðu um fjárlagafrumvarpið. Inni í byggðaáætlun er lögskipað að leggja eigi mat á ástand og horfur í byggðamálum. Það er því ekkert óeðlilegt þótt spurt sé við framlagningu þessa skjals hvort hæstv. ráðherra byggðamála hafi sett þá vinnu í gang.