139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:07]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í ljósi þess við hvað er að glíma í íslensku þjóðfélagi á sú tillaga sem hér liggur fyrir að taka gríðarlegum breytingum. Ef eitthvað væri ætti að leggja þetta plagg til hliðar og vinna að nýju áætlun um byggðamál. Sú framsetning sem hér er viðhöfð, að verið sé að búa til byggðaáætlun sem leggja eigi inn í svokallaða Sóknaráætlun 20/20, er algjörlega óviðunandi. Það er litið á þetta plagg fyrst og fremst sem innlegg í sóknaráætlun.

Hæstv. ráðherra kvartar undan því að verið sé að blanda saman óskyldum málum. — Hæstv. ráðherra hefur vikið sér undan þeirri umræðu sem fram fer í þingsal. Það er mjög miður og ég bið forseta að ýta á eftir því að ráðherra byggðamála sé viðstaddur alla þá umræðu sem á sér stað hér um málefni byggðanna í landinu. Út um allt land stendur fólk á öndinni yfir framgangi ríkisstjórnarinnar og það er lágmark að hæstv. ráðherra sýni því þá virðingu að hún þoli þá umræðu sem hér fer fram.

(Forseti (RR): Hæstv. ráðherra er í húsinu og mun væntanlega taka sæti í sal innan tíðar.)

Hæstv. ráðherra barmar sér undan þeirri gagnrýni sem þetta plagg fær hjá þingmönnum. Það er óhjákvæmilegt að nefna það hér við þessa tillögu, sem á að vera stefnumótandi í byggðamálum landsins fyrir árin 2010–2013, að það er engin áætlun um kostnað, það er engin áætlun um það hvernig ná eigi fram þeim atriðum sem hér eru sett fram og engin áætlun um það hvaða markmiðum þetta plagg á að ná. Þegar maður leggur þetta saman kemst maður að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert með þetta að gera. Og þegar maður lítur yfir öll þau 30 atriði sem eru hér inni, og eru sett fram sem stefnumið, getur maður vissulega tekið undir eitt og eitt sem þar er um að ræða. En megnið af þessu er tóm froða því að það er ekkert innihald í því og allra síst þegar maður skoðar hlutina í ljósi þeirra atburða sem hafa verið að gerast og ástandið sem við er að glíma.

Ég ætla bara nefna hérna eitt dæmi: Rannsókn á orsökum búferlaflutninga. Það er búið að leggja stund á þetta í mörg ár. Þurfum við frekari vitnanna við? Um 65–70% þjóðarinnar búa hér á tiltölulega litlu svæði. Boðuð er ákveðin kerfisbreyting í fjárlagafrumvarpinu og ég hef ekki heyrt einn einasta ráðherra í hæstv. núverandi ríkisstjórn né heldur stjórnarliða koma fram með þau sjónarmið að þeir leggist gegn þeirri kerfisbreytingu sem þar er verið að leggja til. Það sem ég er að ræða er kerfisbreyting í heilbrigðisþjónustu landsmanna.

Því miður hefur umræðan um þann málaflokk verið bundin því fyrst og fremst að þetta sé heilbrigðismál. Það er ekki svo. Það eru miklu fleiri þættir inni í þessu en eingöngu heilbrigðisþjónustan, einfaldlega vegna þess að á ýmsum sviðum sem hér er verið að ræða um að eigi að efla og styrkja — atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni, niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar, náttúrustofur, vísindagarðar o.s.frv. — er verið að skerða fjárframlög holt og bolt. Vissulega þarf að taka til, vissulega þarf að hagræða, en þetta er gert án þess að nokkur heildarsýn sé yfir hlutina.

Ég ætla að taka dæmi af því ágæta svæði sem Þingeyjarsýslur eru í þessu sambandi. Hingað til hefur það svæði ekki verið þekkt fyrir það að þar fjölgi fólki mjög ört eða að byggð sé að styrkjast, langur vegur frá. Hvað er það sem blasir við fólki þar nú um stundir? Það er að það á að fara að gera kerfisbreytingu á sviði heilbrigðisþjónustu. Það á að skera niður framhaldsskólakennslu á Húsavík. Báðar þessar stofnanir eru með mesta niðurskurðinn boðaðan í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Jafnhliða á að skera niður niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og jafnhliða á að skera niður atvinnuráðgjöf. Til viðbótar á að draga úr framlögum til náttúrustofa. Það sjá allir sem utan þessa svæðis eru hvaða skilaboð eru fólgin í þessu til fólks á stöðunum. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það að fólk upplifir þetta á þann veg að því sé sagt að hafa sig í burt af þessum svæðum.

Stjórnvöld verða á einhvern hátt að senda fólki á þessum svæðum önnur skilaboð en þau sem koma fram í því plaggi sem hér liggur fyrir og fólkið á rétt á því, það vildi ég leggja inn í þessa umræðu. Þetta mál er þannig vaxið að það verður ekki skilið frá umræðu um byggðamál. Það er ósanngjarnt að fara fram á það og það er ósanngjarnt og ekki eðlilegt að halda því fram að þingnefndin sem slík, í þessu tilfelli iðnaðarnefnd, eigi að taka þetta mál upp og gjörbreyta því. Vissulega getur hún haft skoðanir á því, og hefur það eflaust. Í ljósi þess að þetta plagg var fyrst lagt fram á vorþingi og væntanlega lauk umræðu um það í apríl, og í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru, hefði ég ekki talið það mikið að ráðuneyti byggðamála í samstarfi við Byggðastofnun hefði tekið þetta plagg og endurskoðað það út frá þeim tillögum sem liggja fyrir í frumvarpinu og komu fram, eins og ég gat um hér áðan í andsvörum, í ágúst, legðist yfir þær áherslur sem þar væru uppi og legði til einhver viðbrögð eða áherslubreytingar þó ekki væri nema til að róa fólk sem telur stöðu sinni verulega ógnað.

Í greiningu sem þróunarsvið Byggðastofnunar hefur gert á ástandi og horfum í þróun byggðar landsins liggur þessi straumur allur í eina átt og það er ekkert nýtt. Þetta er þróun sem hefur átt sér stað á mörgum undanförnum árum og þó að annað slagið hvessi í umræðu manna um þessi mál vil ég leggja áherslu á að þetta er barátta sem ber að halda uppi alla daga og alla tíð. Ég mótmæli því þegar umræða um byggðamál er bundin því að þar séu þröngir hagsmunir einstakra kjördæmapotara á ferðinni. Ég fagna því sérstaklega að sjá ýmsa einstaklinga hér á þingi, sem hingað til hafa verið bundnir mjög höfuðborgarsvæðinu, komna í forsvar fyrir svokölluð landsbyggðarkjördæmi, einstaklinga sem hafa öðlast nýjan skilning og nýja sýn á þessi mál. Það er einfaldlega bjargföst trú mín að þegar við ræðum byggðamál er það ekki síst með það í huga að það svæði sem höfuðborgarsvæðið er njóti góðs af því sem gert er úti um land. Það er á allra vitorði, sem vilja horfast í augu við það, að mesta verðmætasköpunin fer fram í grunnatvinnuvegum úti um land, sjávarútvegi, iðnaði, ferðaþjónustu o.s.frv.

Landsbyggðin hefur hingað til lagt stolt til framfærslu þessa svæðis en hljóðið er að breytast mjög ört. Nú finnst mönnum sem vatnaskil séu að verða. Það dugar ekki eitt og sér að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem sýnir okkur þó þá virðingu að sitja í salnum, ráði til sín upplýsingafulltrúa sem er með aðsetur á Selfossi, fyrrverandi starfsfélaga margra hér á Alþingi, Bjarna Harðarson. Það dugar ekki eitt og sér til að snúa þessu við. Það ber að þakka alla þá viðleitni sem sýnd er, en hún er ekki nægileg. Ég skora á hæstv. ráðherra að leggja sig fram um að leggja iðnaðarnefnd til tillögur, aðstoð við að breyta þessu plaggi algjörlega frá grunni. Ég vil enn fremur skora á hæstv. ráðherra að upplýsa með hvaða hætti Sóknaráætlun 20/20, sem vitnað er til í þessari þingsályktunartillögu, er ætlað að svara þeim röddum sem berast að þingmönnum víðast hvar af landinu nú um stundir.