139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

55. mál
[15:10]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir breytingum á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga. Eins og menn muna voru lög um greiðsluaðlögun einstaklinga samþykkt á Alþingi 24. júní sl. og tóku þau gildi 1. ágúst. Þann dag tók einnig embætti umboðsmanns skuldara til starfa, nýtt embætti sem hefur það hlutverk að gæta sérstaklega hagsmuna skuldara og berjast fyrir hag þeirra gagnvart lánastofnunum og opinberum aðilum eftir því sem við á.

Mikið álag hefur verið á embætti umboðsmanns skuldara frá stofnun þess og hafa stofnuninni borist á fimmta hundrað umsóknir um greiðsluaðlögun. Þörfin fyrir greiðsluaðlögun einstaklinga er því eins og sést mjög mikil og ljóst er að hið nýja embætti nær ekki að stækka nægilega hratt til að anna eftirspurn eftir þjónustu stofnunarinnar þótt ötullega sé unnið að eflingu embættisins og allt gert til að bæta aðbúnað og aðstöðu embættisins. Það er því ljóst að á fyrstu starfsmánuðum embættisins munu umsóknir um greiðsluaðlögun ekki verða afgreiddar eins hratt og við hefðum viljað og því er mjög mikilvægt að við getum tryggt betur en í lögunum frá því í sumar að koma skuldurum í skjól með mál sín. Áður þurfti að bíða eftir samþykki á greiðsluaðlögun en í frumvarpinu er tillaga um að breyta lagagreininni þannig að strax við móttöku á umsókn geti viðkomandi umsækjandi fengið skjól í samræmi við 11. gr. laganna.

Því var breytt í umfjöllun á sínum tíma yfir í það sem lögin sögðu til um, þ.e. upphaflega var reiknað með því að menn kæmust strax í skjól en margir höfðu efasemdir um að það væri réttlætanlegt gagnvart þeim sem áttu skuldirnar. En hér stíga menn það skref sem sagt að fullu, hér er strax veitt skjól en það er aðeins gert til bráðabirgða af öryggisástæðum vegna þess að menn vildu tryggja að ekki væri verið að hafa lögboðinn rétt af þeim sem kröfurnar eiga.

Þetta er mjög mikilvægt mál vegna þess að við þekkjum ástandið sem er í augnablikinu varðandi skuldir heimilanna og þó að mikið hafi verið gert og mörg úrræði komið fram og sum hver hafi skilað verulegum árangri nú þegar er ljóst að það þarf meira til. Við þurfum líka að vinna úr því að þau lög og þau úrræði sem við samþykktum um umboðsmann skuldara, lög um greiðsluaðlögun og lög um tvær eignir, skili sér hratt og vel.

Þrátt fyrir alla umræðu um almennar leiðréttingar sem eru uppi á borðinu og eru til skoðunar í sameiginlegum aðgerðahópi ráðherra og stjórnarandstöðu þar sem fundað hefur verið nánast daglega undanfarna daga — m.a. er fundað í dag með lánastofnunum — megum við búast við að mjög stór hópur þurfi á greiðsluaðlögun að halda og þess vegna er mikilvægt að úrræðin virki.

Fleiri hafa komið með ábendingar varðandi breytingar en það á eftir að vinna betur úr þeim þannig að búast má við því að frekari breytingar verði gerðar á þessum lögum. Við töldum þó mikilvægt að taka þetta eina atriði út úr og reyna að koma því hratt í gegnum þingið. Ég þakka hv. þingmönnum allra flokka sem greiddu fyrir afbrigðum og hafa unnið að þessu máli þannig að það fengi skjótan framgang í þinginu vegna þess að það er mjög mikilvægt að ekki sé gengið að því fólki sem leitar eftir aðstoð með mál sín.

Í 11. gr. sem vitnað er í í þessum lagatexta segir:

Samkvæmt 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, sem áður er vitnað í, er kröfuhöfum óheimilt eftir að umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt af umboðsmanni skuldara að krefjast eða taka við greiðslum á kröfum sínum.

Menn mega sem sagt ekki ganga að skuldaranum, þeir mega ekki gjaldfella skuldir samkvæmt samningsbundnum heimildum, þeir mega ekki gera fjárnám, kyrrsetningu eða löggeymslu á eigum skuldarans eða fá þær seldar nauðungarsölu. Þeir mega ekki fá bú skuldarans tekið til gjaldþrotaskipta og þeir mega ekki neita að afhenda gegn staðgreiðslu eða viðeigandi tryggingum þær vörur eða þjónustu sem skuldari þarf á að halda vegna framfærslu sinnar eða heimilismanna vegna fyrri vanefnda, og þeir mega ekki krefjast greiðslu hjá ábyrgðarmanni skuldara.

Þetta er því veigamikið skjól sem fólk kemst í og þó að það taki einhvern tíma að fá endanlega greiðsluaðlögun er það nauðsynlegt til þess að ekki sé gengið of hart að fólki og setja það út á götu á meðan beðið er.

Ég vona að málið fái skjótan framgang. Ég veit að félags- og tryggingamálanefnd þingsins, sem nánast vann þessi frumvörp með fyrrverandi félags- og tryggingamálaráðherra sl. vor, breytti þeim mikið og betrumbætti. Ég treysti þeirri nefnd til þess að vinna vel og hratt úr þessu máli og koma því sem fyrst til afgreiðslu þannig að úrræðið virki eins og til er ætlast.