139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni.

8. mál
[16:56]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að þakka hv. flutningsmanni Siv Friðleifsdóttur fyrir að flytja þessa þingsályktunartillögu og það frumkvæði sem þingmaðurinn sýnir í málaflokknum með því að halda þessu máli til streitu og flytja það aftur á þessu þingi. Það er alveg ljóst, eins og kom fram í ræðu þingmannsins, að í mörgu gerum við ekki eins vel eins og við gætum og ekki á eins hagkvæman hátt og við gætum og sannarlega ekki alltaf eins vel fyrir notendurna og við getum, jafnvel með minni fjármunum. Það er afar mikilvægt að reyna að nota öll úrræði sem við getum til þess.

Það er þó ýmislegt sem maður hugsar um í sambandi við þetta, hvort hér sé um fullmótaða hugmynd að ræða eða hvort þetta er fyrst og fremst hugmynd sem þarf að skoða betur, ég er eiginlega á því. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að ýta þjónustu til fólks sem þarf kannski ekki á henni að halda. Ég hugsa þá sérstaklega til þess að kannski eru leiðir til að finna með markvissari hætti þá einstaklinga sem þurfa á svona heimsóknum að halda. Ég held að gott væri að skoða þetta sem reynsluverkefni, ef til vill fyrsta árið sem það væri keyrt, og meta síðan út frá því hvar hóparnir eru sem virkilega þurfa á því að halda. Það má ekki gleyma því að svona mál hafa auðvitað verið skoðuð í heilsugæslunni. Heilsugæslulæknar segja mér að hópurinn yfir sjötugt skili sér þokkalega vel inn á heilsugæslustöðvarnar, eins og staðan er núna, en samt ekki alveg allur. Hluti hópsins kemur ekki til heilsugæslunnar, en hún er væntanlega sá staður þar sem fólk mundi oftast leita til eftir úrræðum sem snúa að heilsu þeirra og velferð, sérstaklega þessi aldurshópur. Vandamál sem upp koma hjá þessum aldurshópi, svo sem við það að geta bjargað sér, sjá um aðföng og þess háttar, tengjast því mjög oft að heilsan er farin að gefa sig. Til þessa þarf að horfa.

Ég legg því mikið upp úr því að við skoðum hagkvæmniþættina í frumkeyrslu á þessu því ég held að hugmyndin sé góð, ég er eiginlega sannfærður um að hugmyndin sé góð. Til lengdar þarf þó kannski ekki að heimsækja alla tvisvar á ári en við sjáum til.

Hv. flutningsmaður kom inn á að Íslendingar séu lengur á hjúkrunarheimilum heldur en aðrar þjóðir. Það er hárrétt. Því fylgir gríðarlegur kostnaður. Í þessu sambandi má nefna að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við eitt hjúkrunarrými á ári sé í kringum 7 millj., ef ég man rétt. Þeir sem eru fljótir að reikna geta auðveldlega séð að sú upphæð mundi væntanlega duga fyrir einum og hálfum til tveimur starfsmönnum í heimaþjónustu, eftir því hver menntun þeirra eða fagleg reynsla væri. Einn starfsmaður í heimaþjónustu getur hæglega sinnt tíu einstaklingum úti í bæ en hlutfallið á hjúkrunarheimili er u.þ.b. einn starfsmaður á móti hverjum heimilismanni.

Ég velti því líka fyrir mér hvort aldurstakmarkið 75 ár sé of lágt. Mér finnst það a.m.k. vera lágt ef hugmyndin er sú að heimsækja alla. Ef gera á það væri sennilega hæfilegt að miða við jafnvel 80 ár. Ef til vill væri gott að byrja á lægri aldurshópnum í fyrsta hring til að fá tilfinningu fyrir landslaginu.

Þegar við berum okkur saman við þau lönd og samfélög sem hafa farið þessa leið þá held ég að við verðum að muna að þau eru upp til hópa stærri en við og þess vegna er hættan á félagslegri einangrun kannski meiri þar en hér. Það er hins vegar hárrétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að þetta er engu að síður vandamál og við sjáum það mjög víða í samfélaginu. Geti svona verklag hjálpað til við að rjúfa þá félagslegu einangrun sem þó er á Íslandi væri það vel. Það er enginn vafi á því.

Ég tek heils hugar undir með hv. flutningsmanni að gera á þetta í samvinnu við sveitarfélögin. Það er að mínu mati og hefur verið til margra ára afar brýnt að við flytjum þjónustu við þennan aldurshóp á eina hendi eða a.m.k. stjórnina á þjónustunni á eina hendi, svipað eins og er nú er verið að gera tilraun með í Reykjavík. Sveitarfélögin geta komið inn í öldrunarþjónustuna í miklu meira mæli en þau gera núna en það þarf náttúrlega að vera í góðu samkomulagi við ríkið. Sums staðar úti á landi er áherslan á þjónustuna sem er á hendi ríkisins svo mikil að nánast hefur verið tekið fyrir suma þjónustuþætti sem sveitarfélögin ættu annars að sjá um. Það er því mjög mikilvægt að þetta sé unnið í góðri samvinnu.

Eitt vil ég nefna í sambandi við það af hverju Íslendingar eru lengur á hjúkrunarheimilum en aðrir og hvers vegna einstaklingar sem búa á hjúkrunarheimilum úti á landi dvelja þar lengur en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur dreifbýlið á Íslandi inn í. Ástæðan liggur að stórum hluta í því að menn hafa hreinlega metið það svo að frekar en að veita heimaþjónustu, til að mynda upp til sveita þar sem fjarlægðirnar eru allt að 50 kílómetrar hvora leið, sé hreinlega hagkvæmara að viðkomandi flytji á stofnun. Ríkið hefur svo sem hjálpað til með það. Við þurfum að komast út úr þessum hugsunarhætti. Ef um svona flutning væri að ræða væri það flutningur í þjónustuíbúð þar sem viðkomandi héldi sjálfstæði sínu og frumkvæði til að sjá um sig sjálfur. Það er nefnilega hárrétt sem hv. flutningsmaður kom inn á, það er ekkert skelfilegt við það að verða fullorðinn eða eldast en það er hins vegar ekki góð tilhugsun að verða fullorðinn og eldast og ráðin séu tekin af viðkomandi og hann vistaður á stofnun, jafnvel í áratugi eins og við höfum dæmi um. Það er ekki hvorki góð né skynsamleg hugsun.

Enn og aftur vil ég þakka hv. flutningsmanni kærlega fyrir að flytja þessa þingsályktunartillögu sem og meðflutningsmönnum hennar og vona að hún fái afgreiðslu í þingnefnd og komi til atkvæða síðar í vetur.