139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

nauðungarsala.

58. mál
[12:00]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég er hingað komin sem fulltrúi í allsherjarnefnd til að fagna þessu frumvarpi sérstaklega og þakka hæstv. ráðherra fyrir skjót viðbrögð sem tryggja nú framlengingu á fresti til nauðungarsölu, allt til loka mars á næsta ári. Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess að við hljótum að horfast í augu við það að þeir frestir sem hingað til hafa verið veittir hafa því miður ekki nýst sem skyldi. Það hefur verið fullyrt, og var mikil umræða um það hér þegar haustið nálgaðist, að stjórnvöld og þar með ríkisstjórnin hefðu undirgengist einhvers konar bann frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við að veita frekari fresti af þessu tagi. Það frumvarp sem hér liggur fyrir, sem er stjórnarfrumvarp, er auðvitað staðfesting á að svo var ekki. Það er eðlilegt og rétt og skylt að það komi fram.

Ég vil einnig taka undir hvatningu hæstv. ráðherra um að menn nýti sér þessi úrræði og ég vil sérstaklega nefna Suðurnesin í því sambandi. Við ræddum hér áðan um atvinnuástand á Suðurnesjum og í þeirri umræðu kom fram að nauðungarsölur eru þar gríðarlega margar. Það er mikilvægt að af því verði sem allra fyrst að umboðsmaður skuldara opni útibú þar suður frá. Þetta frumvarp getur einmitt verið liður í því að styrkja Suðurnesin og koma til móts við þann vanda sem þar er við að glíma.

Fulltrúar allra stjórnmálaflokkar hafa hvatt til þess að þetta mál verði lagt fram og þessir frestir lengdir þannig að ég vænti þess að það muni fara hratt og örugglega í gegnum hv. allsherjarnefnd og Alþingi þar í framhaldinu.

Að lokum, frú forseti, legg ég til að með tilliti til lýðheilsusjónarmiða verði Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins flutt frá fjármálaráðuneyti til heilbrigðisráðuneytis.