139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

lausnir á skuldavanda heimilanna.

[15:07]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðu undanfarinna daga hefur það komið fram að mikilvægt er að við leitum af okkur allan grun og förum vandlega yfir málin og könnum til hlítar alla þá kosti sem fyrir hendi eru til að greiða úr skuldavandanum.

Það er mikilvægt vegna þess að sú niðurstaða sem við komumst að núna verður að virka. Það verður að vera alveg ljóst að við gerum allt sem við mögulega getum gert þannig að enginn gangi að því gruflandi að við höfum gert allt sem hægt er að gera. Það sem verið er að reikna núna eru ýmsir ólíkir kostir. Það er verið að verðmeta ólíka kosti. En ekki þarf bara að verðmeta þá heldur líka reyna að leggja á hvern og einn kost eða eitthvert mat á þeim árangri sem viðkomandi kostur skilar. Skilar einn kostur umfram annan meiri árangri í því sem við erum öll að reyna að gera, þ.e. létta greiðslubyrði þeirra sem hafa þunga greiðslubyrði vegna lána sinna? Eða eru einstakir kostir of dýrir, of óhagkvæmir, og er þá hægt að fara einfaldari og ódýrari leiðir? Það er það verkefni sem fyrir okkur liggur að leggja mat á þetta. Niðurstaða sérfræðinganna á að greiða úr því fyrir okkur.

Ég hef ítrekað sagt aftur og aftur, og hef ekki skipt um skoðun í því efni, að ég leggst ekki gegn flötum niðurfellingum ef menn geta fundið leiðir til að fjármagna þær án þess að það hafi í för með sér rýrnun á lífeyrisrétti fólks og án þess að það hafi í för með sér byrðar fyrir ríkissjóð. Ég hef ekki enn þá séð slíka leið en, eins og ég segi, ég vil að við reiknum alla kosti út. Ég vil að við einsetjum okkur að ná samstöðu um að nýta það svigrúm sem fyrir hendi er í bönkunum, að ríkið geri það sem það getur mögulega gert innan þess þrönga fjárhagsramma sem við búum við þannig að við getum öll horft framan í þjóðina og sagt: Við höfum gert allt sem hægt er að gera.