139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

lausnir á skuldavanda heimilanna.

[15:11]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að það þarf að mæta þeim sem eru í erfiðum greiðsluvanda og það höfum við gert. Við höfum snúið skipinu við. Við höfum breytt í grundvallaratriðum leikreglunum hvað varðar aðstoð við þá sem eiga í erfiðum greiðsluvanda síðasta eitt og hálfa árið. Það hefur ekki gengið nægilega hratt að hrinda því öllu í framkvæmd en ekki er þar með sagt að það hafi verið rangt gefið.

Síðan þurfum við, og það er verkefni þessara daga, að kanna hvaða svigrúm kunni að vera til þess með almennum hætti að flýta fyrir þessari vegferð. Við þurfum líkja að tryggja, í meðferð erfiðara skuldamála, að þar vinni menn hraðar þannig að ríkið komi hraðar að málum og innheimtumenn á vegum sveitarfélaga komi hraðar að, að birgjar komi hraðar að þannig að það sé ekki þannig að allir bíði eftir öllum eins og verið hefur í meðferð erfiðara skuldamála af því að hér á Íslandi hefur ekki tíðkast að mæta skuldurum fyrr en nú.