139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

stækkun Reykjanesvirkjunar.

[15:14]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er fullyrt í ræðustól að þarna hafi átt sér stað óeðlilegar tafir á framkvæmdum og veitingu virkjanaleyfis. Ef svo er, að þarna hafi óeðlilegar tafir átt sér stað, þá er það ferli kæranlegt. Það er kæranlegt til þess ráðherra sem hér stendur og því get ég ekki tjáð mig um það mál neitt frekar í ræðustól, ella yrði ég vanhæf eins og menn þekkja vel. En þannig er málið og enginn hefur kært neinar óeðlilegar tafir í þessu efni.

Virðulegi forseti. Það er heilmikil hreyfing á málum suður með sjó og ég fagna því verulega. Á nýlegum samráðsfundi, sem ég hélt með öllum hagsmunaaðilum þessa verkefnis, bæði orkusölunum tveimur og orkukaupanum, sem er Norðurál, kom í ljós að beggja vegna borðsins var mikill vilji til að leysa líka þann ágreining sem þar hefur verið uppi, og olli því meðal annars að mál fóru í gerðardóm og eru í gerðardómi í Svíþjóð á milli HS Orku og Norðuráls. Það voru afar slæm tíðindi þegar mál fóru í það hart að þau enduðu í gerðardómi í Svíþjóð. Það er von mín, og ég hef orð þeirra fyrir því, að samningaviðræður milli þeirra gangi það vel að þeir séu bjartsýnir á því að mál eigi eftir að geta farið úr þeim farvegi sem allra fyrst. Ég svona svo sannarlega að svo verði og að óvissunni um þetta mál verði eytt.

En lykilatriðið er það að ef eitthvað óeðlilegt á sér stað í leyfisveitingaferlum þá er það samkvæmt lögum kæranlegt og til mín hefur ekki borist kæra.