139. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2010.

háskólamál.

[15:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ekki alls fyrir löngu var kynnt könnun sem snerti samkeppnisstöðu Íslands og við húrruðum niður þann lista en það var sérstaklega tekið fram að Ísland væri sterkt á ákveðnum sviðum. Á sviði heilbrigðismála, þó verið sé að vega að þeim geira núna, og ekki síst á sviði menntunar, rannsókna og vísinda, og það er gott, ágætt að þær stoðir séu enn sterkar.

Það hefur auðvitað margt gerst á umliðnum árum. Við stóðum frammi fyrir því fyrir 15 árum, það er ekki lengra síðan, að við vorum miklir eftirbátar Norðurlandaþjóðanna hvað varðar aðsókn í háskóla. Við tókum pólitíska ákvörðun um að fjölga nemendum í háskóla, fjölga námsleiðum, námstækifærum og auka gæðakröfur. Þetta leiddi meðal annars af sér fjölgun háskóla. Eftir ákveðið tímabil var afráðið að fara í, eftir að við höfðum náð því takmarki að fjölga nemendum, að sameina háskóla. Ég man að við tókumst á um það í þessum sal, þáverandi stjórnarandstaða og við sem vorum þá í ríkisstjórn, að sameina Háskólann í Reykjavík og Tækniháskólann og síðan var sem betur fer meiri samhljómur fyrir því að fara í sameiningu Kennaraháskólans og Háskóla Íslands og ég tel að sú sameining hafi verið heillaskref.

Nú hefur hæstv. menntamálaráðherra meðal annars tilkynnt nýtt samstarfsnet opinberu háskólanna. Sérstaklega er stofnað til þess með það í huga að standa vörð um starfsemi opinberu háskólanna með hugsanlega sameiningu þeirra í framtíðinni. Ég vil sérstaklega draga það fram hér að ég tel þetta vera hárrétt skref hjá hæstv. menntamálaráðherra og vil hrósa henni fyrir að halda áfram að gera allt sem í hennar valdi stendur til að ýta undir samvinnu og aukið samstarf hjá hinum opinberu háskólum. Ég hefði einnig viljað sjá þetta gert meðal einkareknu háskólanna.

Ég gæti auðvitað farið í að deila um það af hverju þetta samstarfsnet þurfi að kosta 300 millj. kr., ég mun gera það undir fjárlagaumræðunni. En ég vil halda áfram með þetta samstarfsnet sem ég tel af hinu góða og í tengslum við það hafa hugmyndir verið ræddar um að hér verði starfræktur einn ríkisháskóli, þ.e. að sameina Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólann, Hólaskóla og Háskólann á Akureyri. Ég tel þetta ekki raunsætt eins og er en tel þó rétt að skoða sérstaklega að háskólarnir sunnan heiða, þ.e. Landbúnaðarháskólinn og Háskóli Íslands, verði sameinaðir og þá hugsanlega Hólaskóli og Háskólinn á Akureyri.

Ég tel líka ljóst að innan einkareknu háskólanna, þ.e. Bifrastar og Háskólans í Reykjavík, verðum við að auka enn frekar samstarfið og ég tel í rauninni óhjákvæmilegt að þessir skólar tveir sameinist í þágu hagræðingar og í þágu gæða. Ég tel að þetta séu þau skref sem væri gott fyrir okkur að sjá stigin á sviði háskólamála og rannsókna á næstu árum þannig að við getum haldið áfram að vera með þessar sterku stoðir á sviði mennta.

Niðurskurðurinn hefur bitnað á háskólanum eins og víðar þó að rétt sé að draga fram að það er jákvætt að sjá ákveðna tilraun til forgangsröðunar hjá ríkisstjórninni til að hlífa menntuninni. En þó verð ég líka að lýsa furðu minni á því að ætlunin er að efla hug- og félagsvísindi með því að skerða heilbrigðis- og raunvísindi. Ég tel þetta ekki réttu aðferðina til að efla háskólanámið. Ég tel því rétt í ljósi þess að gæðaráð hefur verið stofnað innan menntamálaráðuneytisins að það skoði sérstaklega hvaða áhrif þessi pólitíska ákvörðun, um að skerða reiknilíkanið sem snertir heilbrigðis- og raunvísindagreinar, hefur á gæðin innan háskólanna og ekki síður það stóra vandamál sem Háskóli Íslands stendur frammi fyrir, að það eru 900 nemendur á þessu ári, 2010, sem Háskóli Íslands þarf að taka án þess að fá greitt með. Ef fram heldur sem horfir verða þetta 1.400 nemendur á næsta ári án þess að Háskóli Íslands fái greiðslur fyrir.

Ég tel óhjákvæmilegt að við á Alþingi förum að ræða það hvort við eigum annars vegar að þjappa eins mörgum einstaklingum í háskólana og hægt er og það verður þá bara gert á kostnað gæðanna, þá verðum við einfaldlega að segja að það fylgi með eða þá að við förum í að takmarka aðgang að háskólanum gegn því að við höldum áfram fyllstu gæðakröfum. Þetta eru þau viðfangsefni sem við á Alþingi þurfum meðal annars að leysa og standa frammi fyrir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Hvernig sér hæstv. ráðherra þróun á sviði háskólamála? Hvaða sameiningar sér hún eiga sér stað innan tíðar, fyrr en síðar?

Í öðru lagi: Er von á breytingum á þessu reiknilíkani sem boðaðar hafa verið, var sátt við háskólann þegar breytingarnar voru gerðar á reiknilíkaninu sem snertir skerðinguna á heilbrigðis- og félagsvísindum?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hana að því hvort hún telji rétt að fólk geti endurgjaldslaust tekið tvær eða aflað sér tveggja eða jafnvel þriggja meistaragráðna á háskólasviði.