139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er eins og svo oft áður að þessi liður, störf þingsins, fer út og suður. Ég bað um orðið undir ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar og ætlaði svo sannarlega að taka undir hvatningu hans til okkar allra, að taka nú undir orð hæstv. fjármálaráðherra og hætta umkenningaleik og standa saman um atvinnuuppbyggingu. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður úr þessum stól að þetta er það sem þarf að gerast hér. Við þurfum öll að taka höndum saman til að auka atvinnu vegna þess að það er eina leiðin til að við náum okkur upp úr þeirri efnahagslægð sem við erum í núna. Fólk á það skilið frá okkur að við hættum að karpa og komum okkur að verki.

Ég vil líka blanda mér í umræðuna um svokölluðu IPA-styrkina. Það er alltaf jafnkostulegt að sjá stjórnarþingmenn koma upp og vera mjög mikið niðri fyrir og tala þvert á það sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar segja. Það vill svo til að ég og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason höfum oftar en ekki verið sammála um Evrópumálin. En ég hlýt að spyrja — og hæstv. utanríkisráðherra er í salnum — forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, hvort sem það eru hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar, hvort þeir geti ekki farið að koma sér saman um hvað eigi að gera í þessum Evrópumálum. Vilji þingsins lá fyrir, segja þeir í þingsályktunartillögunni. En það er hreint með ólíkindum og er orðið íslenskri þjóð til háðungar að hér séu oft og ítrekað umræður sem gera ekkert annað en að leiða fram þá vitleysu sem hér er í gangi, (Forseti hringir.) ég leyfi mér að kalla það vitleysu. (Forseti hringir.) Það verður að fara að koma þessum málum í það horf að við getum borið höfuðið hátt.