139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum -- IPA-styrkir ESB -- mannréttindamál í Kína o.fl.

[14:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mér þótti hv. formaður utanríkismálanefndar bera hér nokkur tíðindi áðan þegar hann sagði, eins og ég skildi það, að ráðherranefnd um Evrópumál hefði tekið þá afstöðu að setja þessa margumræddu IPA-styrki á „hold“ svo ég sletti aðeins, virðulegur forseti. Því vildi ég koma hér upp til að fá úr því skorið. Mér þykir leitt að — þarna er þá hv. þm. Árni Þór Sigurðsson. Ef hann kæmist að til að staðfesta þennan skilning minn vildi ég spyrja þingmanninn hvort það sé svo að þetta þýði að allir styrkir til allra ráðuneyta, hvort sem þau eru mönnuð ráðherrum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eða ráðherrum Samfylkingarinnar, séu komnir á ís. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti svarað því. Ef þingmaðurinn kemst ekki að óska ég hér með eftir því að þetta verði rætt í utanríkismálanefnd hið fyrsta.

Varðandi nóbelsverðlaunahafann kínverska, Liu Xiaobo, og mótmæli íslenskra stjórnvalda þá get ég tekið undir með hv. þm. Merði Árnasyni að það væri ágætisbragur á því ef Alþingi Íslendinga mótmælti þessu. En ég verð hins vegar að segja eftir að hafa verið áheyrandi að útskýringum utanríkisráðuneytisins á því af hverju ráðuneytið og ráðherrann kaus að birta einungis yfirlýsingu á heimasíðunni í staðinn fyrir að bera formlega nótu eða kalla kínverska sendiherrann til fundar til að mótmæla þessu, að ég varð ekki mjög „impressed“ svo ég sletti aftur.

Kínversk stjórnvöld hafa sagt í fjölmiðlum að þeim hafi ekki borist formleg mótmæli (Forseti hringir.) frá íslenskum stjórnvöldum. Jafnvel þótt íslenskur ráðherra mótmæli hátt og snjallt á heimasíðu sinni er það ekki ígildi formlegra mótmæla. Ég hvet því íslensk stjórnvöld til að fara yfir á Víðimel með bréfið góða, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson (Forseti hringir.) orðaði það.