139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að Alþingi Íslendinga hefði betur tekið sér til fyrirmyndar þau vinnubrögð sem voru viðhöfð hjá sveitarstjórnarmönnum um land allt. Strax í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 tóku sveitarstjórnarmenn sig saman, hvort heldur sem var minni hluti eða meiri hluti, og réðust í það verkefni sem fram undan var eftir efnahagshrunið. Menn fóru í mjög harðar aðgerðir til að bregðast við áhrifum hrunsins og strax á árunum 2008 og 2009 skáru sveitarfélögin verulega niður.

Hvað gerist svo, virðulegi forseti? Á árinu 2009, með bandorminum 1. júní, hrifsar ríkið til sín alla hagræðingu sveitarfélaganna með einu pennastriki. Í lok árs 2009 er síðan enn hækkað tryggingagjaldið. Þá aftur á móti greiddi ríkið til baka þær 1.200 millj. sem áætlað var að sú hækkun gerði en reyndin er hins vegar 1.400 millj.

Síðan er búið að samþykkja lög, þau voru afgreidd hér í desember sl., sem þýddu aukaútgjöld upp á rúmar 400 milljónir fyrir sveitarfélögin. Samt sem áður er samningur um það að kostnaðarreikna frumvörp áður en þau eru lögð fram og samþykkt á Alþingi. Þetta var samt gert. Í einu vetfangi er ríkið búið að hrifsa til sín marga milljarða frá sveitarfélögunum með skattheimtu eins og hv. þingmaður og síðasti ræðumaður benti hér á.

Ég tel fullvíst að hæstv. samgönguráðherra geri sér grein fyrir því í ljósi stöðu fjölskyldnanna í landinu að það er ekki mikið svigrúm fyrir sveitarfélögin til að hækka álögurnar, það blasir eiginlega við öllum. Þá er bara eitt til ráða. Nú verða ríkisvaldið og sveitarfélögin að taka höndum saman og horfast í augu við vandann. Við eigum að taka til að mynda sveitarfélögin og ríkisvaldið í Danmörku okkur til fyrirmyndar þar sem stjórnvöld eru einmitt að vinna að því með sveitarfélögunum að létta af þeim byrðum til að þau geti sinnt þeirri grunnþjónustu sem þeim ber skylda til að veita.

Að lokum vil ég segja þetta, virðulegi forseti: Það hefur komið fram hjá sveitarstjórnarmönnum sem hafa fundað með fjárlaganefnd undanfarna daga að verði ekki leiðrétting á seinni hækkun á tryggingagjaldinu og jöfnunarsjóðsframlaginu munu mörg sveitarfélög ekki geta framkvæmt neitt á næsta ári og sum þeirra ekki geta sinnt lögboðnum skyldum. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra til að gera (Forseti hringir.) eitthvað í málunum en ekki bara tala um það.