139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það jákvæða sem ég sé við þetta frumvarp er að það kallar á umræðu um eðli þess starfa sem við gegnum hér. Ég get því miður ekki tekið undir með hv. þingmanni Þráni Bertelssyni þó að það feli í sér jöfnuð. Ég sé engan jöfnuð í því að allir fái það sama fyrir mjög misjafnt vinnuframlag. Mér finnst satt að segja menn í þessari umræðu vera fulluppteknir af hugtökunum áhrif og völd því ég lít svo á að áhrif og völd séu samlegðaráhrif meiri hluta í nefndum og störfum þingsins. Formennska í nefndum er í mínum huga miklu frekar trúnaðarstarf sem þingmenn taka að sér fyrir þingið, fyrir löggjafarsamkomuna, ákveðið verkstjórnarhlutverk sem þeir taka að sér. Því fylgir náttúrlega umtalsverður vinnuauki og ég dreg ekki í efa að menn lýsi því rétt. Það hefur reyndar verið reynsla mín þann tíma sem ég hef verið formaður í nefnd að því fylgir umtalsvert vinnuálag.

Ég sé ekki alveg sanngirnina í því að láta menn gjalda áhuga síns á að taka að sér slík störf, því ef ég á að velja á milli þess að launa manni starf sem hefur áhuga á því eða öðrum sem ekki hefur áhuga, mundi ég frekar vilja velja þann mann til starfans sem hefur áhuga og forustuhæfileika.

Ég sé ekkert að því að umbuna fólki fyrir vel unnin störf eða aukið vinnuálag. Ég bið menn líka að velta fyrir sér anda kjarasamninga og þeirra áherslna sem lagðar eru af stéttarfélögum eða erum við svo sérstök og sér á báti og upphafin hér, alþingismenn, að við getum ekki lotið sömu lögmálum og sömu áherslum og gilda á almennum vinnumarkaði um verkaskiptingu og misjafnt vinnuálag og misjafna ábyrgð sem er lögð mönnum á herðar gegn launum. 15% álag á nefndarformennsku er ekki (Forseti hringir.) hátt álag.