139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

24. mál
[17:35]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu andsvari kom fram sjónarmið sem ég átti alveg von á að kæmi fram, það að sumir vinni meira en aðrir og eigi því að fá meira borgað en aðrir. Við því sjónarmiði er ekkert að segja, nema bara það að ég hef þá skoðun að þingmenn eru ekki kosnir af almenningi inn á þing til að verða þingflokksformenn, ráðherrar, formenn í nefndum eða eitthvað svoleiðis. Það er verkaskipting innan þingsins. Það er enginn skyldugur til að taka að sér þá vinnu nema sá sem sækist eftir henni.

Að borga það aukalega finnst mér bara ekki vera jöfnuður. Við Gunnar Bragi Sveinsson erum sammála um að þingmennska sé starf sem er 24 tímar á sólarhring sjö daga í viku, að vísu sef ég líka svona sjö, átta tíma og svo borða ég stundum svo það dragast þarna frá nokkrir tímar sem ég gæti þá væntanlega eytt í nefndarformennsku eða eitthvað svoleiðis ef því væri að skipta.

Ég hafna því að það sé hægt að mæla starf þingmannsins til launa með því hvort menn eru formenn í einhverri nefnd eða formenn í þingflokki. Við erum þingmenn. Við höfum umboð frá þjóðinni til að bæta þetta samfélag okkar. Við gerum það ekki betra þótt við fáum 15% álag á þingfararkaup.