139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[14:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu í þinginu um heilbrigðisþjónustuna og mikilvægi hennar og þá áherslu sem kemur fram í framsögunni að hér sé um að ræða undirstöðu í mörgum byggðarlögum og að verið sé að fjalla um hvað viðkvæmustu málin sem varða þjónustu í heimabyggð.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson spyr sérstaklega um hvernig undirbúningi hafi verið hagað. Ég leitaði mér heimilda um það vegna þess að ég hef ekki verið nema rétt rúmlega mánuð í ráðuneytinu. Þann 7. júlí sl. sendi fjármálaráðuneytið umburðarbréf þar sem kynnt var ákvörðun ríkisstjórnarinnar um útfærslu á útgjaldaramma við gerð fjárlagafrumvarpsins þar sem heildartölurnar komu fram, 43 milljarðar og 32 milljarða kr. lækkun útgjalda og þar með ættu 5% að fara í velferðarmálin. Í sama bréfi var þó tekið fram að æskilegt væri að horfa til forgangsröðunar verkefna, endurskilgreiningar á verkefnum og verkferlum og mögulegrar samþættingar á verkefnum og breytinga á stofnanakerfi. Almennt var talið í þessu bréfi að æskilegt væri að forðast að beita flötum niðurskurði. Þetta bréf er skrifað fyrir mína tíð en fór út til allra stofnana. Í sumar og haust upplýstu svo starfsmenn ráðuneytisins í samtölum við forsvarsmenn heilbrigðisstofnana að flötum niðurskurði verði ekki beitt í fjárlögum komandi árs eins og hefur verið gert á síðustu árum og hefur verið gagnrýnt að gert hafi verið.

Allt frá því að efnahagskreppan skall á hefur ráðuneytið — ég hef náttúrlega fylgst með sem formaður fjárlaganefndar — verið í sambandi varðandi eftirlit um framkvæmd fjárlaga og stofnanir um allt land hafa tekið afar vel á málum, í rekstrarmálum almennt og staðist fjárlög, og tekið virkan þátt í aðgerðum til að hagræða og endurskipuleggja í sambandi við heilbrigðismálin í heild. Þetta vildi ég segja varðandi aðdragandann og samráðið.

Þegar ég kem að þessum málum í september átta ég mig á þessum fjárlagatölum og fer yfir þær. Ég gerði raunar formlega athugasemdir við þær, þ.e. að sumar þeirra þyrfti að endurskoða. Síðan, áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram, fundaði ég með öllum framkvæmdastjórum heilbrigðisstofnana hverjum fyrir sig þar sem farið var yfir tillögurnar í fjárlagafrumvarpinu og hvernig sá niðurskurður sem þar er boðaður lendir á hverri og einni stofnun og þessar tillögur voru ræddar þar. Það sem ég lagði fram á þessum fundum var í fyrsta lagi að ég styddi það heildarmarkmið að heilbrigðisþjónustan yrði að standa skil á sínum 4,8 milljörðum. Í öðru lagi að ég styddi að það væri ekki endilega farið í flatan niðurskurð heldur reynt að skoða þjónustuna á hverjum stað og hún samræmd og reynt að tryggja að þjónustan væri endurskipulögð um leið og farið væri í hagræðinguna, og ég styddi þá meginhugmynd að við ættum að hafa þann fókus að reyna að efla heilsugæsluna, þennan fyrsta móttökustað, þá þjónustu sem einmitt er grunnþjónustan úti um allt land. Þetta er meginlínan í frumvarpinu þó að það birtist með mjög glannalegum hætti varðandi niðurskurð á einstökum sjúkrasviðum. Þó er þar tekið fram að hlífa skuli ákveðnum stöðum eða réttara sagt fara skuli vel yfir og skoða staði eins og Ísafjörð, Neskaupstað og Vestmannaeyjar fyrir utan Landspítalann og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og fyrir utan heilsugæsluna.

Ég áskildi mér þá strax, eins og ég sagði, rétt til að fara yfir þessa hluti. Ég óskaði eftir því við forstöðumenn og framkvæmdastjóra að þeir færu heim með þessar tillögur, færu vel yfir þær og skoðuðu það í samráði við sveitarfélögin á viðkomandi stað hvaða afleiðingar þetta hefði. Ég boðaði það að síðan yrði farinn hringur þar sem við skoðuðum það í heilbrigðisumdæmunum hvernig þessi niðurskurður kæmi fram.

Ég get upplýst það líka að ég sagði á þessum fundum, að ég held öllum, að ég óskaði eindregið eftir því að framkvæmdastjórar segðu ekki upp fólki vegna þess að ég vakti athygli á því að þetta væri fjárlagafrumvarp sem nú færi til Alþingis, það yrði ekki afgreitt fyrr en 20. desember eða þar um kring, og þá fyrst lægi fyrir hverjar fjárveitingarnar yrðu. Það yrði að vera á ábyrgð mína ef ekki væri hægt að ná fram hagræðingunni eins og til stóð vegna þess að þessu seinkaði. En það er útilokað að menn fari að framkvæma, eins og hefur þó viðgengist á undanförnum árum, að menn byrji að framkvæma eftir fjárlagafrumvarpinu um leið og það er lagt fram. Það er bara ekki í tísku í dag og á ekki við. Sú breyting er á að það er auðvitað þingið sem hefur rétt til að fara yfir þetta og skoða þetta þó að ég telji, eins og ég sagði, mikilvægt að við stöndum við meginmarkmið fjárlagafrumvarpsins.

Núna er teymi að fara hringinn í kringum landið. Það verður haldinn sérstakur fundur með framkvæmdastjórum og heimaaðilum og farið yfir á hverjum stað hvernig þetta lítur út. Þeim upplýsingum verður síðan safnað eftir þessa viku, menn eru einmitt á Húsavík og Akureyri í dag. Ég mun síðan fara yfir þær tillögur og endurskoða og koma með nýjar tillögur fyrir 2. umr. Það sem hefur verið meginfókusinn er einmitt að skoða öryggismálin, hvaða þjónusta er nauðsynleg í hverju héraði, hvaða þjónusta mætti hugsanlega missa sín, hvernig mætti koma hlutum betur fyrir, vegna þess að auðvitað er margt bundið við ákveðna sögu og ákveðinn tíma og má endurskoðast. Þetta eru akkúrat hlutir sem verið er að fara yfir þessa dagana (Forseti hringir.) og við skulum sjá hvað út úr því kemur. Það verður auðvitað kynnt fyrir nefndum þingsins og fer svo í endurskoðunina á fjárlagafrumvarpinu.