139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

[14:58]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Öllum Íslendingum hefur verið það ljóst frá hruni íslensku bankanna að harðir tímar eru fram undan. Það er þörf á miklum niðurskurði í ríkisrekstri. Þetta vita allir og það hafa allir lýst því yfir að menn séu tilbúnir til að fara í niðurskurð í heilbrigðisgeiranum. Hins vegar hefur af hálfu ríkisstjórnarflokkanna skort algerlega á samráð og mér er algerlega óskiljanlegt hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir velja að fara þessa leið þegar á að fara í svona harkalegar aðgerðir. Ég kalla eftir skýrari svörum frá hæstv. ráðherra við spurningunni: Hvers vegna er þessi leið farin? Hvers vegna er þessi aðferðafræði notuð?

Ég tel að það sé mikil ábyrgð fólgin í því að halda á þessum þunga niðurskurðarhníf. Það er þungur hnífur sem ráðherrann er með í hendinni en það er hægt að beita honum þannig að fá fólkið með sér vegna þess að allir Íslendingar skilja þessar aðstæður. Þess vegna kom mér ekki á óvart við heimsóknir á heilbrigðisstofnanir þær sem eru í mínu kjördæmi að þar voru stjórnendur tilbúnir með tillögur til niðurskurðar. Þær voru reyndar ekki upp á 40, 50, 60% af rekstri sjúkrasviða þeirra stofnana heldur voru menn tilbúnir með 5 til 10% niðurskurð vegna þess að þetta er ábyrgðarfullt fólk sem stýrir stofnunum okkar og það vissi að þetta væri fram undan.

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ber þess ekki merki að það sé ljóst hvert skuli stefnt. Þarna kemur einfaldlega fram að fara eigi í gríðarlega harkalegar aðgerðir. Hins vegar er þeirri spurningu ósvarað hver framtíðin er. Hver er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar fyrir þessar stofnanir á landsbyggðinni? Er hún sú að þær verði ekki til? Það þarf þá að svara þeirri spurningu skýrt. Það er best að tala skýrt þegar menn eru að taka erfiðar ákvarðanir. (Forseti hringir.)

Síðan þarf að sjálfsögðu að svara því hvort ríkisstjórnarflokkarnir ætli sér að stækka kökuna með því að heimila innflutning á sjúklingum sem geta fengið bót (Forseti hringir.) meina sinna hér á landi. Á að koma með einhverjar markaðslausnir og á að nýta sér kosti markaðarins í þessu kerfi?