139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[16:43]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá þingmanninum að það er engin tilviljun að við erum hvor í sínum flokknum og hefur allnokkrum sinnum komið fram bæði í þingsal og utan hans. Mig langar að nefna það af því að þingmaðurinn nefnir náttúruverndaráætlun sem olli mér miklum vonbrigðum að var afgreidd í ágreiningi út úr þinginu. Ég tel að það sé mikilvægt að þingið sé samhent um náttúruverndaráætlunina þar sem hún er í raun og veru áætlun þingsins byggð á fræðilegum og faglegum grunni og faglegum forsendum til að fara í friðlýsingar á tilteknum svæðum.

Hins vegar hef ég verið þeirrar skoðunar, og það er ágætt að deila því með þingmanninum og öðrum sem á hlýða, að við þurfum að taka undirbúning og framkvæmd náttúruverndaráætlunar til gagngerrar endurskoðunar. Fyrst og fremst vegna þess að við þurfum að huga að því að bæði heimamenn, sveitarfélög og þeir sem gerst til þekkja á viðkomandi svæðum séu nær samráðsvettvangnum frá byrjun. Þannig komum við ekki með áætlun frá þinginu sem ekki hefur e.t.v. hlotið kynningu og meðferð í heimabyggð sem þarf vegna þess að náttúruvernd er fyrst og fremst félagslegt og samfélagslegt verkefni og verður ekki unnið öðruvísi en í ríku samráði frá fyrsta degi. Þetta er mín reynsla eftir að hafa fylgt eftir nýrri náttúruverndaráætlun sem var samþykkt í fyrravetur og að hafa horft upp á það að fyrri náttúruverndaráætlun með 14 samþykktum svæðum hafi einungis náð að klára friðlýsingu fjögurra svæðanna. Það er einboðið að ferlið verður að fara í rækilega endurskoðun. Raunar hef ég falið nefndinni um endurskoðun náttúruverndarlaga að rýna þetta ferli sérstaklega.