139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[17:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hefur kannski komið fram í andsvörum mínum eða þátttöku minni í andsvörum að ég fagna þessu frumvarpi sem slíku, og þó að nefndir þingsins og þingheimur kunni að breyta því á einhvern veg tel ég að það væri affarasælast að það kæmist í heildina óbreytt út úr þinginu og yrði að lögum.

Ég held að það sé líka merkur dagur í þingsögunni og í umhverfis- og orkumálum þegar þetta frumvarp kemur fram. Það kom að vísu fram á síðasta þingi en þá auðvitað aðallega til að sýna það og skoða án þess að ætlast væri til þess af hálfu flytjandans að það yrði að lögum eða færi í gegnum rannsókn.

Með frumvarpinu og þeirri áætlun sem á eftir kemur væntanlega er með nokkrum hætti gefið upp á nýtt í þessum málaflokki og breytt stöðu þeirra sem við sögu koma, skapaðar nýjar leikreglur í þeim átökum sem hér hafa staðið yfir í þessari umferð í u.þ.b. 40 ár, frá u.þ.b. árinu 1970 þegar virkjanaáform fóru á flug, það má kannski segja á 7. áratugnum. En það var samt engin andstaða við Búrfellsvirkjun á sínum tíma og þegar deilt var um álverið í Straumsvík fóru þær deilur ekki fram á umhverfislegum forsendum heldur fyrst og fremst á þjóðernislegum forsendum. Þáverandi stjórnarandstaða lagðist gegn stofnun álversins fyrst og fremst vegna þess að það var erlent auðfyrirtæki en ekki vegna þess að það væri slæmt af umhverfisástæðum eða einhverjum öðrum ástæðum. Það skipti a.m.k. ekki miklu máli í þeim málflutningi. Þáverandi stjórnarflokkar sem stóðu fyrir byggingu þess álvers og upphafi álversframkvæmda á Íslandi voru heldur ekki að spekúlera í umhverfismálum heldur voru þeir auðvitað að reyna að fá fé fyrir orkuna sem var algerlega eðlilegt.

Það er kannski rétt að rifja það upp í því tilefni að eitt af því sem flýtti fyrir og ýtti á á þeim tíma var að menn höfðu fengið þær upplýsingar frá útlöndum að það væri eiginlega síðasti möguleiki að fá nokkuð fyrir íslensku orkuna því að nú væri tími kjarnorkunnar og orkulindir Íslands yrðu meira og minna úreltar eftir nokkur missiri. Það var skammsýni þeirra góðu manna sem við fyrirgefum nú en þannig hefur umræðan breyst og forsendurnar líka og það hefur margt gerst á þessum 40 árum. Nú ætti ég náttúrlega að ræða fyrri baráttu um þetta á Íslandi, fossadeilurnar um aldamótin, og fara bæði með ljóð Einars Benediktssonar, Þorsteins Erlingssonar og Kristjáns Jónssonar og fleiri sem ortu um Dettifoss og önnur fallvötn en ég ætla að láta það eiga sig.

Ég held að þær leikreglur sem við erum hér með að skapa séu mjög þarfar og sá völlur sem við erum að hasla þessum átökum sé líka mikið framfaraspor. Það sem hefur eyðilagt fyrir okkur er einmitt það að ekki hefur verið haslaður neinn völlur. Það hefur farið eftir — sumir kalla það hina klikkuðu kalla — það hefur farið eftir framkvæmdaviljanum. „Það skal samt fram“, sagði Hannes Hafstein, sem Davíð Oddsson hafði gaman af að endurtaka einmitt í þessum stól. Síðan hafa aðrir þurft að verjast þessum framkvæmdum sem yfirleitt eru knúnar áfram af atvinnuhagsmunum vegna þess að fólk þarf peninga, við þurfum að hafa fé í velferðina og við þurfum að útvega fólki vinnu, sem eru rök sem erfitt er að andæfa og ekkert á bak við nema náttúra Íslands og landið okkar góða — og nú horfi ég, forseti, í augun á Árna Johnsen náttúruunnanda. (Gripið fram í.)

Með þessum áformum hér er að nokkru leyti hægt að rétta af þann lýðræðishalla sem hefur verið í þessari umræðu og komið niður á fyrst og fremst hagsmunum íslenskrar náttúru, ef þannig má taka til orða. Náttúran hefur aldrei átt fyrsta leik heldur alltaf annan, þriðja eða fjórða og varnarmenn hennar, því miður varnarmenn en ekki sóknar-, hafa hrakist undan því ofurefli sem oft hefur verið við að etja í þessum efnum. Þá má ekki gleyma að margir sigrar hafa unnist og án þess að rekja þá er sú staða að við séum að ræða um alvörurammaáætlun og setja hana í regluverk auðvitað einn af þeim sigrum.

Ekki má þó gleyma því, forseti, af því að menn tala svo mikið um sættir og sátt á Íslandi, það er nánast að verða einhvers konar sálfræðilegt eða sálpólitískt blæti að geta aldrei opnað munninn án þess að tala um sátt og sættir, að hér verða ekki neinar sérstakar sættir. Það er ekki von á því, forseti, að eftir að þetta frumvarp verður að lögum og rammaáætlun næst verði menn sáttari en ella um það hvort á að virkja Urriðafoss eða leyfa vatnsmesta fossi á Íslandi að standa. Það er ekki þannig. En átökin verða vonandi á hærra plani, þannig að það sé vitnað í einn af þátttakendunum frá um 1970. Þau verða byggð á faglegri forsendum og meiri yfirsýn og meiri víðsýni um bæði náttúruna og orkukostina og það er það sem við þurfum. Það er það sem við eigum t.d. að læra af Norðmönnum vegna þess að þetta frumvarp er á norskum grunni. Þetta miðast við — þessi hugmynd um rammaáætlunina, að hún hafi gildi, er að ýmsu leyti tekin frá Noregi og frá því sem þeir lærðu af miklum deilum í norskri sögu sem einmitt voru líka á 7. áratugnum, í kringum 1970. En þeir höfðu vit á því, Norðmenn, sem mörgum þykja leiðinlegir en eru einhver skynsamasta þjóð á norðurhveli jarðar, að stíga skrefið í viðbót og skapa einmitt leikreglur og hasla þessum átökum völl með vatnslögum sínum eða „vassdrags“-lögum sem eru að ýmsu leyti fyrirmynd að þessu.

Þá er rétt að nefna, eins og hér hefur komið fram og ég sagði í andsvari, að þessi áform eiga sér stoð í stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Sá sáttmáli erfði þau áform úr stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Upphafsmenn rammaáætlunar voru hins vegar ráðherrar Framsóknarflokksins, Valgerður Sverrisdóttir sem hér var nefnd og annar maður sem er ekki í tísku að nefna mikið í samfélaginu núna og heitir Finnur Ingólfsson en hann má eiga það að hann hratt þessu máli af stað. Hér vantar því eiginlega ekkert í flokkakerfið nema Hreyfinguna sem ætti að geta orðið sammála þessu frumvarpi í megindráttum.

Annað sem ég vil nefna hér og það er, í tengslum við einmitt sættirnar og leikvöllinn, að hin faglegu sjónarmið ættu að vera tryggð með þessum hætti. Úr þeirri verkefnisstjórn sem nú er einmitt að störfum eða er a.m.k. að bíða eftir þessu frumvarpi til að halda áfram störfum og á samkvæmt því að vera til um ófyrirsjáanlega framtíð með einhverjum hætti, a.m.k. þangað til við erum komin að einhverri allsherjarsátt, sem verður kannski seint, um það hvernig eigi að hafa þetta. Út úr vinnu verkefnisstjórnar eiga að koma þau faglegu sjónarmið sem við getum notað á þinginu og í samfélaginu til að reiða okkur á í umræðu um einstök landsvæði og einstakar virkjunarhugmyndir eða framkvæmdahugmyndir, en það þýðir ekki að málið sé þar með búið. Þetta er ekki þannig að við ætlum að fela pólitíkina í umhverfis- og orkumálum á þessu sviði einhverri háskólastofnun eða einhverju mandarínaveldi svo sem eins og í Kína hinu forna og kannski hinu nýja líka, heldur eiga þessi faglegu sjónarmið að vera grundvöllur pólitískrar umræðu sem fer fram á Alþingi Íslendinga og hljómar út í samfélagið og hljómar svo úr samfélaginu og aftur hér inn á Alþingi Íslendinga. Það er hinn mikli kostur við þetta mál, að geta tekið þannig á þeim átökum, á þeim mismunandi sjónarmiðum, áherslumun eða hvað við viljum kalla það, sem upp kemur í kringum bæði einstök svæði, einstakar virkjanir og um þetta mál í heild sinni, eins og sést af þeirri umræðu sem hér hefur geisað undanfarin ár og raunar áratugi.

Þetta verðum við að muna því að menn geta á grundvelli pólitískra sjónarmiða tekið afstöðu í einstökum málum, í hvaða röð þau lenda, hvaða einkunnir sem þau hafa fengið í umfjöllun fræðimanna. Menn geta a.m.k. síður rekið slíka pólitík gegn hinum fræðilegu staðreyndum og gegn hinu fræðilega mati og þar með ættu pólarnir í þessari umræðu, hinar miklu fylkingar, klikkaðir karlar öðrum megin og hippar og lýður hinum megin, að geta aðeins færst nær og geta ræðst við með öðrum hætti en þeim sem hingað til hefur verið.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta að sinni og vonast eftir að eiga kost á að ræða þessi mál bæði í þeim umræðum sem eru eftir, 2. og 3. ef vill, og síðan í nefndum þingsins. Þá er rétt að minna á að það er auðvitað hæstv. iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir sem ber frumvarpið fram en í samráði við umhverfisráðherra þann sem mér situr hér til vinstri handar, hæstv. ráðherra Svandísi Svavarsdóttur. Raunar var það þannig að forverar þeirra, hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson sem enn er ráðherra og félagi minn, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sem var umhverfisráðherra, höfðu líka samvinnu um þetta á sínum tíma, og þetta mál á að reka í framhaldinu þannig að bæði ráðuneytin komi að því og báðir þeir ráðherrar sem við sögu koma.

Samkvæmt stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr eiga auðlindamálin að færast til umhverfisráðuneytisins og vel má vera og ég tel það líklegt ef af því verður, sem ég vona sannarlega að verði, að þá verði það kannski umhverfisráðherra sem flytur að lokum og helst í næsta skipti þá þingsályktunartillögu sem um er að ræða og að lögunum verði þá breytt í tengslum við þessar breytingar í Stjórnarráðinu en að sjálfsögðu þá í samráði við iðnaðarráðherra vegna þess að þetta er sameiginlegt svið.

Ég vil segja frá því hér að ég hef rætt það lauslega við formann iðnaðarnefndar, hv. þm. Kristján L. Möller, að iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd verði með einhverjum hætti samferða í umfjöllun um málið. Með hvaða hætti á eftir að véla betur um og það erum ekki við einir sem komum að því en það er eðlilegt að svo verði og í samræmi við málið í heild sinni.

Þá er bara eftir að lokum að fagna þeim áfanga sem ég tel að 1. umr. um þetta mál sé og lýsa þeirri von að við eigum eftir að ná, þótt ekki sé um sættir að ræða, betri og skynsamlegri umræðuhætti um þetta mál og slík mál á þinginu og í samfélaginu en verið hefur.