139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þingsköp Alþingis.

43. mál
[18:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að leggja fram þetta lagabreytingarfrumvarp og lýsa því yfir að ég er algjörlega sammála þeim sjónarmiðum sem komu fram í ræðu hennar, ég tel að það eigi að vera grundvallaratriði í stjórnskipan okkar að skilið sé með þessum hætti á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég lýsi því þess vegna jafnframt yfir að ég er einnig fylgjandi tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur en eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á tekur þetta styttri tíma og hægt er að kippa þessu í liðinn án þess að hitt gangi eftir.

Það eru hins vegar tvær meginspurningar sem mig langar að velta upp og fá viðbrögð þingmannsins við. Það er í fyrsta lagi: Telur þingmaðurinn að með þessari breytingu yrði vægi stjórnarinnar eða stjórnarþingmanna óeðlilega mikið á þinginu og hvort hún hafi þá hugsað leiðir til þess að mæta því, til að mynda með því að styrkja stjórnarandstöðuna að einhverju leyti, t.d. eins og með nefndarformennsku eða einhverju slíku?

Þá eru það einnig atriði sem lúta að kostnaði sem ég vildi inna þingmanninn eftir: Sæi þingmaðurinn það koma til greina að jafnhliða svona breytingu — væntanlega yrði það stjórnarskrárbreyting — væri opnað á þann möguleika að fækka þingmönnum sem væru kjörnir til þess að af þessari breytingu hlytist ekki of mikill kostnaður?