139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég reyndi að útskýra fyrir hv. þingmanni að ég tel að við eigum ekki að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort semja eigi nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnarkerfið. Ég tel að það eigi að fara með frumvarpið um fiskveiðistjórnarkerfið þegar það liggur fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Alveg á sama hátt tel ég að fara eigi með samninginn sem við fáum við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu en við eigum ekki að greiða atkvæði um það hvort við eigum að gera samning. Ég skil þetta þannig. Við erum í þessu núna og eigum ekki að greiða atkvæði. En þegar við erum komin á leiðarenda, já, þá greiðum við atkvæði svo við förum ekki út og suður.

Það er óvissa um allt. Ég held að þó að málin séu rædd frekar og komist til botns í þeim þá verði greidd um það atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að það ali ekki á neinni óvissu. Við erum að reyna að fá festu í málið og þá skiptir ekki máli, hv. þingmaður, hvar fólk á heima, hvort það býr í Reykjavík eða úti á landi. Alls staðar hvar sem við eigum heima þá skiptum við máli.