139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

aðstoð við fátæka -- mál á dagskrá.

[11:30]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil taka undir þá beiðni sem hefur komið fram hjá þingmönnunum Þór Saari og Þráni Bertelssyni um að við förum að einbeita okkur af alvöru að málum heimila og fátæks fólks. Á forsíðu Morgunblaðsins í morgun var sagt frá því að nú eru fleiri að verða mjög ríkir og það eru fleiri að verða mjög fátækir. Það þýðir að millistéttin er að þurrkast út eins og alls staðar þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stígur niður fæti. Þetta sýnir okkur það að sú stefna sem hér hefur verið rekin er komin í öngstræti og við verðum að taka 180 gráðu beygju öll saman.

Ég óska því eftir því að þingflokksformenn fundi með forseta og við getum farið yfir það með hvaða hætti þingið getur ráðist í þessi mál eigi síðar en strax.