139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

aðstoð við fátæka -- mál á dagskrá.

[11:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið heils hugar undir það með hv. þm. Þráni Bertelssyni að tíma Alþingis væri betur varið í að ræða hvað megi gera til að létta þeim sem erfiðast eiga í okkar samfélagi lífsbaráttuna frekar en að þrasa í hálftíma til þrjú korter um dagskrá fundarins. Ég veit ekki hvort til eru mælingar á því hvaða traust þýska þjóðin ber til þjóðþings síns, Bundestag, en hitt sagði mér Wolfgang Thierse, þáverandi forseti þingsins, að um það væri alger samstaða á Bundestag að þar deildu menn ekki um dagskrá eða fundarsköp í þingsalnum. Það væri leyst á fundum með forseta þingsins með formönnum þingflokka eða formönnum nefnda. Ástæðan er einföld, sagði Thierse, ástæðan er einföld, sagði þessi forseti þýska þjóðþingsins: Við bjóðum þýsku þjóðinni ekki upp á það að æðsta stofnun hennar geti ekki komið sér saman um og leyst úr slíkum hlutum og þurfi að rífast um það eins og krakkar í þingsalnum. Við sýnum einfaldlega þýsku þjóðinni ekki þá mynd af æðstu stofnun þjóðarinnar.

(Forseti hringir.) Kannski ber þýska þjóðin eitthvað meira traust til síns þjóðþings en sú íslenska gerir um þessar mundir. Kannski er þetta ein af ástæðunum. Kannski er þetta eitthvað fyrir okkur til að hugsa um.