139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[12:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þakka þér fyrir að leiðrétta þetta en svona getur gerst. Við verðum að lifa við það. Það sem ég vil segja á þessum seinni tveimur mínútum sem ég hef til umráða er að það gengur ekki að ráðherra ætli að beita sér fyrir því að verðlauna þá sem ákváðu að fara út úr þessari grein. Það verður gert nái þetta fram að ganga. Það á ekki að koma til móts við þá sem tóku á sig skerðingar en héldu samt áfram uppi atvinnu í byggðunum hringinn í kringum landið. Þeir fóru í hagræðingu í sínum rekstri en héldu samt áfram í þeirri von að fá bætur eða fá til baka það sem tekið var af þeim.

Með þessu er verið að skerða atvinnuréttindi þeirra sem vinna í greininni og eru búnir að vinna í henni lengi.

Óvissan um stefnu stjórnvalda, það er fyrst og fremst hún, frú forseti, sem heldur leigumarkaðnum í heljargreipum. Menn þora ekki að leigja frá sér heimildir vegna þess að þeir óttast að verða skertir. Þeir óttast að heimildirnar verði skertar og þeir fái ekki bætur til baka. Það eru stjórnvöld sem halda þessum markaði með leiguheimildir og gera það að verkum að menn geta ekki leigt til sín. Það eru engir aðrir en stjórnvöld sem halda því í frosti.

Ég skora á hæstv. ráðherra að hætta við þær fyrirætlanir sem hann hefur haldið á lofti, að hætta við þær og gefa niðurstöðunni sem endurskoðunarnefnd um sjávarútvegsstefnuna lagði til tækifæri, fara í gegnum hana og reyna að koma fram með frumvarp sem leysir flest málin. Við getum aldrei leyst öll málin sem deilt er um. Við erum öll sammála um að það er, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir nefndi, (Forseti hringir.) þjóðin sem á aflaheimildir og fiskinn í sjónum.