139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[16:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig undrar það mjög að þetta mál skuli vera komið á dagskrá í frumvarpsformi því að í frumvarpinu kemur fram á bls. 8, í umsögn frá fjárlagaskrifstofunni:

„Ísland hefur þó ávallt lagt á það ríka áherslu að engin lagaleg skuldbinding standi til greiðslna af þessum toga.“

Með öðrum orðum, utanríkisráðherra fer hér fram með frumvarp um að skuldbinda íslenska ríkið að lögum næstu fimm árin um tæpa 6 milljarða — og við skulum athuga að það er ekki í íslenskum krónum. Hér er verið að skuldbinda íslenska ríkið um tæpa 6 milljarða næstu fimm ár í erlendum gjaldeyri, gjaldeyri sem hefur aldrei verið verðmætari fyrir íslenska þjóð og nú.

Það er hreint ótrúlegt að þetta skuli vera komið hér inn því það kemur einnig fram í ummælunum frá fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið lögfest er áætlað að það hafi í för með sér ný útgjöld fyrir ríkissjóð sem að hámarki geta orðið 34 milljónir evra yfir tímabilið […].“

Fjármálaráðuneytið er að mælast til að þetta verði ekki gert enda hver annar ætti svo sem að gæta að fjárhirslum ríkisins en akkúrat fjármálaráðuneytið? Þetta er Þróunarsjóður EFTA, hann greiðir peninga til ríkja sem eru illa stödd fjárhagslega, frú forseti. Eigum við ekki að líta okkur nær? Því spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Hvers vegna er frumvarpið lagt til nú og hvers vegna er lagt til að samningurinn sem Ísland hefur verið aðili að verði nú lögfestur til að flækja okkur enn frekar í netinu?