139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

71. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ef ég hefði tök á því að breyta skattalögunum held ég að ég mundi byrja á einhverju öðru en skattareglum varðandi Drekasvæðið. Ég færi frekar í að breyta einhverju nýrra sem búið var til af núverandi hæstv. ríkisstjórn, með fullri virðingu fyrir henni.

Ég vil segja að þær áherslur sem koma fram í þessari þingsályktunartillögu, sem ég mælti fyrir og hafa í rauninni oft og tíðum verið lagðar fram á Alþingi, lúta miklu fremur að grunnrannsóknum á Gammsvæðinu. Við erum komin út í miklu stærra, erfiðara og dýpra dæmi, sem Drekasvæðið er og olíuleit þar. Ég mælist ekki til að dregið verði í land í þeim efnum. Ég sé það bara í fjárlagafrumvarpinu sem við liggjum nú yfir í fjárlaganefndinni að þar draga menn úr. Tillögur hæstv. ríkisstjórnar lúta að því að draga úr fjárveitingum til rannsóknarverkefna á Drekasvæðinu. Engar tillögur eru uppi um breytingar á skattaregluverkinu í kringum það dæmi. Mér er raunar til efs, með fullri virðingu fyrir samstarfsfólki hæstv. utanríkisráðherra, að mjög mikill vilji sé til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar væru.

Það sem ég vil undirstrika er að á Gammsvæðinu, á Tjörnesbrotabeltinu, þurfum við að leggja aukið fé til grunnrannsókna, eingöngu til að ganga úr skugga um hvort við eigum möguleika á því, þó ekki væri annað, að nýta það gas sem kann að vera á svæðinu. Ég held að allir sem til þekkja séu til muna miklu meira efins um að þarna sé að finna olíu í einhverju vinnanlegu magni, miklu fremur er þetta spurningin um nýtingu eða mögulega nýtingu á gasi.