139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

fríverslun við Bandaríkin.

95. mál
[18:09]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra hlý orð í minn garð og velvild og þau ánægjulegu samskipti sem við höfum átt þann stutta tíma sem ég hef verið hér.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra kom inn á þá er það þannig þegar maður leggur vinnu í að undirbúa sig fyrir svona þingsályktunartillögu að maður reynir að afla sér sem bestra upplýsinga. Í því sambandi vil ég nefna að ég átti mjög góð samtöl við starfsmenn utanríkisráðuneytisins hér heima og ekki síst átti ég síðan samtöl við einn af aðstoðarmönnum öldungadeildarþingmannsins Johns Kerrys í Bandaríkjunum og bar undir hann hvernig viðtökur við fengjum ef við óskuðum eftir slíkum viðræðum. Það er ekki síst á þeim forsendum sem ég ákvað að leggja þessa tillögu fram að viðmótið var jákvætt. Ég þekki það sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi varðandi þær kröfur sem Bandaríkin hafa gert í svona samningaviðræðum og horfi ég sérstaklega til þess að Sviss óskaði eftir slíkum viðræðum og þær strönduðu m.a. á ákveðnum kröfum. En í ljósi þessa ágæta samtals sem ég átti við einstakling á Bandaríkjaþingi ákvað ég að fara þessa leið.

Ég hef lagt á það áherslu í þessu sambandi að við leitum allra leiða til að styrkja stoðir íslensks efnahagslífs og horfa til Bandaríkjanna í þeim efnum. Það eru teikn á lofti um að þeir vilji bæta samskiptin, eins og ég nefndi áðan og er í greinargerðinni. Við eigum að nýta okkur það. Svo á náttúrlega aldrei í samningagerð sem þessari að útiloka neitt fyrir fram. Menn eiga ekki að hugsa sem svo að það þýði ekkert að fara í svona viðræður af því að settar verði fram einhverjar kröfur sem við getum ekki mætt. Með þannig hugarfari held ég að við eigum ekki að nálgast þessa hluti.

Ég ræddi einnig við formann Bændasamtakanna um tillögu mína og átti við hann gott og jákvætt spjall. Í ljósi alls þessa leit tillagan dagsins ljós og ég vona að hún fái góðar umræður í þinginu.