139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

lagaskrifstofa Alþingis.

49. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Ég flyt frumvarp til laga um lagaskrifstofu Alþingis á þingskjali 50. Flutningsmenn frumvarpsins með mér eru Baldvin Jónsson, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson, Margrét Tryggvadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir og Þór Saari.

Ég hef verið talsmaður þess að lagasetning á Alþingi verði betrumbætt, að henni verði komið á þann stað sem við getum verið stolt af í samanburði við aðrar þjóðir. Frá því ég settist á þing hef ég séð og reynt á eigin skinni að hér er oft mikil fljótaskrift á lagasetningum. Frumvörp koma inn í þingið óyfirlesin og stangast jafnvel á við önnur lög, stjórnarskrá, alþjóðasamninga og annað, þannig að þau eru vart þingtæk. Til gamans má geta þess að ég lenti sjálf í þessu fyrr í vikunni þar sem ég var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu, að setja ákveðið mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sex þingmenn auk mín voru búnir að lesa þingsályktunartillöguna yfir. Hún var búin að fara í gegnum nefndasvið þingsins. Þingsályktunartillagan var komin með málsnúmer og enginn hreyfði mótmælum við því að þetta rækist á önnur lög. Svo kemur í ljós þegar búið er að dreifa þessu í þinginu að það er galli í þingsályktunartillögunni. Þriggja mánaða markið sem þurfti að lágmarki til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu hafði gleymst. Þetta er gott dæmi til að benda á nauðsyn þess að stofna lagaskrifstofu Alþingis. Svona koma mál inn í þingið sem tæpast standast og eru vart þingtæk. Þess vegna verðum við að fá lagaskrifstofu þar sem þekkingin verður í húsinu. Við skulum reyna að taka höndum saman um frumvarpið og fá það samþykkt. Ef við ætlum að ná þjóðinni á fætur verða lögin í samfélaginu að vera í lagi.

Ég fullyrti það þegar ég flutti framsöguræðuna að frumvarpinu á síðasta þingi að slök lagasetning væri e.t.v. ástæða þess, eða við skulum segja hluti þess, að hér hrundi allt á haustdögum 2008. Farið var með frumvörp og þingsályktunartillögur inn í þingið sem voru jafnvel skrifuð og samin á skrifstofum hjá hagsmunaaðilum úti í bæ. Síðan komu sömu hagsmunaaðilar á nefndarfundi, til þingmanna, og héldu áfram áróðri sínum fyrir því sem þeir vildu ná í gegn í frumvarpinu. Svo varð þetta allt saman að lögum.

Við verðum að spyrna við fótum. Við verðum að gera þetta vel. Þar sem við erum sífellt að bera okkur saman við Norðurlöndin erum við mikill eftirbátur að þessu leyti. Norska þjóðþingið og ráðuneytin eru með lagaskrifstofur til þess að óhöpp af þessu tagi gerist ekki.

Sem dæmi má nefna hvað Danir tóku því alvarlega á sínum tíma þegar sett voru lög sem brutu í bága við danska stjórnarskrá. Þá var lagaskrifstofa sett á fót. Síðan hefur ekki komið upp viðlíka mál því netið er svo þéttriðið í danska þinginu að þar koma aðeins inn þingmál sem standast kröfur löggjafans.

Hér á landi er löng hefð fyrir meirihlutastjórnum með örfáum undantekningum þó. Það gerir framkvæmdarvaldið sterkt gagnvart löggjafanum og þá er meiri hætta á óvandaðri lagasetningu. Í krafti meirihlutavaldsins á þingi er hægt að koma nánast hverju sem er inn í þingið. Í annað skipti í dag nefni ég dæmi um Icesave-frumvarpið sem varð að lögum. Forsetinn synjaði því, þar höfðum við öryggisventil. Það sáu allir hvað málið var gallað frá upphafi og þjóðin felldi það með eftirminnilegum hætti 98:2 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þarna var mál sem gekk gegn reglum um lagasetningu, gekk gegn siðferðisvitund þjóðarinnar. Enda var um mikla skuldbindingar að ræða fyrir íslensku þjóðina. Síðan hefur komið í ljós að samningurinn stóðst enga skoðun því þegar forsetinn hafnaði samningnum lá betri samningur á borðinu. Það er þetta sem við þurfum að passa upp á.

Í kjölfarið gerðist merkilegur hlutur. Ég ásamt fleiri þingmönnum lagði fram frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis til að styrkja löggjafann og aðgreina frá framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið hefur ógnartök á þinginu. Það sannaðist í dag þegar breytingartillaga að þjóðaratkvæðagreiðslulögunum sem ég lagði fram komst ekki á dagskrá þingsins vegna hluta sem við höfum farið yfir. Þarna þurfum við að skilja á milli.

Það sem gerðist eftir að ég lagði fram frumvarpið í sumar, ásamt fleiri þingmönnum, var að forsætisráðuneytið tók sig til og stofnaði sína eigin lagaskrifstofu. Það var eftir að frumvarpið sem nú er til umfjöllunar í annað sinn var komið fram. Það gerðist þannig að hæstv. forsætisráðherra ákvað að setja á stofn lagaskrifstofu í forsætisráðuneytinu. Þar eru þrír starfsmenn. Það vantar ekki fjármagnið hjá framkvæmdarvaldinu að grípa inn í, en það er ekki það sem við biðjum um. Við, flutningsmenn frumvarpsins, erum ekki að biðja um að stofnuð verði lagaskrifstofa í ráðuneytunum. Framkvæmdarvaldið er nú þegar of sterkt og löggjafinn of veikur gagnvart því. Við förum fram á að fá þessa stofnun flutta hingað niður á Alþingi, í Alþingishúsið, út á nefndasvið þannig að samanburðurinn fari hérna fram.

Þegar málið var tekið fyrir í allsherjarnefnd lá fyrir umsögn forsætisráðuneytisins þar sem kemur fram útlisting á því hvers vegna búið var að stofna lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins og þörfinni fyrir því að skrifstofan ætti að vera þar. Forsætisráðuneytið lagðist meira að segja svo lágt að leggja það til að þingmenn gætu sent frumvörp sín til forsætisráðuneytisins til yfirlestrar. Svo mikil samhæfing átti að vera á þessari lagaskrifstofu.

Mér sýnist eitthvað hafi verið dregið í land. Það er búið að breyta þessari svokölluðu lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins. Það er búið að blanda inn í hana mannréttindum þannig að þetta heitir ekki lagaskrifstofa eins og upphaflega. Ég læt það líka vera því það vakti athygli að forsætisráðuneytið væri búið að taka valdið til sín. En þetta var aðeins um það sem ég vildi sagt hafa. Nú ætla ég að fara í söguna.

Hugmyndin er alls ekki ný af nálinni. Páll Pétursson, þáverandi alþingismaður okkar framsóknarmanna, var svo framsýnn á 116. löggjafarþingi að hann lagði fram þingsályktunartillögu um að sett yrði á stofn lagaráð eða lagaskrifstofa um lögfræðileg álitaefni. Einkum það sem varðaði stjórnarskrá lýðveldisins, mannréttindi og alþjóðlegar skuldbindingar til að gæta lagasamræmis. Þarna sýndi Páll Pétursson framúrskarandi þekkingu á því að þetta væri nauðsynlegt, strax á þessum árum. Þetta var á árunum 1992–1994, enda flutti hann tillöguna á þremur löggjafarþingum sem hann fylgdi fast eftir. Því miður fékk tillagan ekki brautargengi á þessum tíma. Hún hefði betur gert það því þá værum við ekki eins illa stödd og við erum í dag ef á þessum árum hefði verið komið virt lagaráð við Alþingi. Þetta er á þeim tíma þegar umræðan um það hvort Íslendingar ættu að ganga inn í EES-samninginn stóð sem hæst. Þarna var Páll Pétursson búinn að átta sig á því að ef EES-samningurinn yrði samþykktur þyrfti að styrkja Alþingi faglega. Það þurfti á þeim tíma þegar EES-samningurinn var samþykktur. Það var ekki gert. Alþingi var hvorki styrkt faglega ná fjárhagslega á þessum árum og við erum að súpa seyðið af því í dag. Ég fullyrði það, frú forseti.

Málið var síðan endurvakið á 126. löggjafarþingi. Þá var talið að stofna þyrfti lagaráð. Það voru hvorki meira né minna en þáverandi þingmaður Bryndís Hlöðversdóttir, sem nú er lagaprófessor á Bifröst, hæstv. núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, og Lúðvík Bergvinsson héraðsdómslögmaður. Þarna voru þessir einstaklingar búnir að átta sig á því að við þetta yrði ekki unað. Hér yrði að koma með afgerandi hætti faglegt ráð til þess að vera alþingismönnum til aðstoðar og yfirfara frumvörp og þingsályktunartillögur áður en þær yrðu lagðar fyrir þingið.

Þau skoðuðu líka Norðurlöndin, sem við berum okkur svo oft saman við, þar eru við sum dómsmálaráðuneytin lagaskrifstofur eða lágaráð. Þingmennirnir mátu það svo að ekki ætti að vera lagaskrifstofa við Stjórnarráðið, heldur Alþingi. Nú hef ég farið í gegnum söguna 1994, í kringum 2000 og núna. Þetta er rúmlega 15 ára gömul hugmynd sem þingmenn margra flokka hafa komið að og nú er mál að láta til skarar skríða. Gera þetta að veruleika þannig að við getum eflt okkur sem þjóð og eflt okkur í framtíðinni að við höfum þann örugga lagaramma sem við þurfum. Nóg er nú álagið samt á dómstóla. Nóg er álagið á umboðsmanni Alþingis þótt ekki sé verið að búa til slæma afurð sem stoppar hjá þessum aðilum. Eins og við vitum hefur álagið á umboðsmanni Alþingis aldrei verið meira. Hann hefur hátt á annað hundrað mál til rannsóknar og frumkvæðisathugunar á hverju ári vegna galla og yfirsjóna í löggjöfinni.

Hliðarparturinn af þessu er sá að Alþingi á alls ekki að starfa á nóttunni, eins og kom í ljós í umræðunni í vikunni. Ákveðin frumvörp voru samþykkt milli klukkan fjögur og fimm aðfaranótt 17. júní. Þetta er annað sem við þurfum að breyta og bæta en er ekki hluti af þessum frumvarpsdrögum. Ég hvet forseta þingsins að beita sér í að laga þetta, því það er ekki nokkur hemja að alþingismenn setji lög undir morgun því að þá er enn meiri hætta á mistökum, sér í lagi ef frumvörpin og þingsályktunartillögurnar eru ekki nógu vel unnar. Mistökin geta legið víða.

Ég legg þetta fram, frú forseti, og óska eftir því að frumvarpið fari til allsherjarnefndar og fái þar skjóta og góða afgreiðslu. Málið fer síðan til umsagnar þannig að ég vonast til að það komi fljótlega í 2. umr.