139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég trúi því varla að formaður Sjálfstæðisflokksins ætli mér á tveimur mínútum að svara fyrir um aðgerðir sem eru í undirbúningi að því er varðar skuldavanda heimilanna. Hv. þingmaður veit auðvitað mætavel hvað þar liggur á borðinu enda ræddum við það síðast í gær. Þar kom fram að við mundum hittast síðdegis á mánudaginn til að fara endanlega yfir skýrsluna um úrræði og tillögur sem hafa verið á borðinu og menn hafa verið að reikna út. Þær tillögur eru margvíslegar og margar athyglisverðar. Ég trúi því að þegar upp er staðið verði hægt að ná samstöðu um þessar tillögur, ég tel þær þess eðlis. Þetta eru níu tillögur og ég held að af þeim tillögum sem hafa verið uppi á borðinu þurfi að skoða a.m.k. nokkrar leiðir í því sambandi.

Ég tek að vísu eftir því að sjálfstæðismenn hafa í tillögunum núna lagt til lánalengingu á skuldum heimilanna. Ég sá ekkert þar um flata niðurfærslu á skuldum eða annað þannig að það verður fróðlegt í þessari umræðu hér, fyrst hv. þingmaður opnar á hana, að heyra hvort þetta sé sú tillaga sem þeir hafa til að leysa skuldavanda heimilanna, þ.e. hugmyndin um lánalengingu. Við erum vissulega að skoða hana og hún er inni í þeim aðgerðum sem menn eru að skoða. Það er verið að reikna hana út og niðurstaðan mun örugglega liggja fyrir á mánudaginn.

Hv. þingmaður veit líka mætavel að á umliðnum vikum höfum við sett fram a.m.k. tvö eða þrjú mál til að létta á skuldavanda heimilanna, m.a. vegna uppboðsmála. Af því að hv. þingmaður minnist hér á neysluviðmiðið er verið að skoða það mál og ég vona að við getum fengið einhverjar tillögur þar að lútandi fljótlega.