139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:09]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Nú er það svo, eins og hv. þingmaður veit, að við fórum í samvinnu og samráð um skuldavanda heimilanna, ekki bara stjórnmálaflokkarnir heldur var það einnig við Hagsmunasamtök heimilanna, lífeyrissjóðina og bankana. Ég veit ekki hvort hv. þingmanni finnst það tilhlýðilegt þegar þessi skýrsla hefur ekki einu sinni verið sett fram að ég tilgreini nákvæmlega hvaða leiðir ég vil fara í þessu efni. Ég er að þessu samráði til að ná samvinnu og niðurstöðu við þá aðila sem hafa verið kallaðir að borðinu. Ég kveinka mér ekkert undan því að svara fyrirspurn frá hv. þingmanni en þingmaðurinn má heldur ekki kveinka sér undan því að svara því sem ég spyr hann um að því er varðar tillögur íhaldsins.

Af því að þingmaðurinn nefnir hér skattalækkanir sem þeir hafa boðað verður þingmaðurinn að athuga hvað það þýðir. Bara á næsta ári mundi það stækka gatið um 86 milljarða kr., bara fyrir það eina ár, ef fara ætti í þær skattalækkanir (Gripið fram í.) sem hv. þingmaður er að nefna. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Voðalegur óróleiki er þetta þegar maður er að lýsa þeim tillögum sem þeir hafa lagt á borðið. (Forseti hringir.) Hv. þingmenn sjálfstæðismanna verða líka að þola að þeirra tillögur sæti gagnrýni eins og þeir eru að gagnrýna okkar tillögur.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni tóm til að svara.)