139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar tillögur og þessa umræðu. Í rauninni svaraði bæði hæstv. utanríkisráðherra og hv. þingmaður í síðasta andsvari spurningunni sem ég ætlaði að koma með.

Þegar ég skoða þingsályktunartillöguna finnst mér þetta vera prýðilegt upplegg og miða að því að reyna að fá aðila til að setjast niður og taka afstöðu til nauðsynlegra mála, því að það sem þarf að gera er að taka afstöðu, það þarf að taka ákvörðun.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór yfir það að þegar menn hafa gert eitthvað í þessa veru hafi niðurstaðan því miður orðið leiksýningar og spuni. Við vorum með stöðugleikasáttmála og talandi um hann af því að hæstv. utanríkisráðherra talaði um að menn væru að hlaupa frá því að vilja setjast niður með ríkisstjórninni, sem er alrangt, þá hlupu bæði SA og ASÍ frá því samkomulagi af því að hæstv. ríkisstjórn stóð ekki við það. Síðan horfum við endalaust upp á það að þegar ríkisstjórnin er komin í virkilegan vanda lætur hún umræðuna snúast um stjórnarandstöðuna. Þetta gengur út á það að reyna að fá hana að borðinu eins og það heitir og reyna svo að segja: Hún kemur ekki að borðinu, hún hljóp út. Sjáiði hvað hún er slæm. Út á slíkt gengur þetta leikrit og þessi spuni og á meðan er ekkert gert. Þetta er miklu alvarlegra en menn ætla. Við sjáum þetta bara í ríkisfjármálunum, í heilbrigðismálunum, menn hafa ekkert gert þar í tvö ár. Það vissu allir í október 2008 hver vandinn var. Öllu er slegið á frest, öllu lofað og nú sitjum við uppi með miklu meiri vanda en við þurftum að sitja uppi með. Ég spyr í fullri einlægni hv. þingmann: Jafnvel þó að tillagan yrði samþykkt, jafnvel þó að hæstv. forsætisráðherra vildi fara í þetta verkefni, eru einhverjar líkur á að þetta yrði eitthvað annað en hefðbundin spuna- og leiksýning eins og hv. þingmaður lýsti áðan?