139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:06]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þetta svar. Ég er sammála mati hv. þingmanns, eins og svo oft, en hefði áhuga á að bæta við einni spurningu út frá því sem hv. þingmaður nefndi um að svo virtist vera sem menn þyrftu að vera orðnir ráðherrar til að mark væri tekið á tillögum sem frá þeim kæmu. Það birtist svolítið í því að það er fyrst og fremst tekið tillit til tillagna sem koma frá þeim flokkum sem hafa ráðuneytin, réttara sagt fyrst og fremst ríkisstjórnartillögum.

Ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum núna þegar umræður hófust um skuldavanda heimilanna með samstarf um það samráð sem var tilkomið vegna mótmælanna, sem hv. þingmaður vísað til. Maður hélt að það yrði kannski einhver raunveruleg breyting. Hæstv. forsætisráðherra byrjaði á að tala um það eða tala í þá veru a.m.k. að stefnt væri að almennri leiðréttingu, svo virðist það einhvern veginn hafa dottið upp fyrir. Maður óttast að enn eina ferðina sé þetta bara hluti af einhverri leiksýningu. Má ekki leysa þennan vanda með því að mynda þjóðstjórn? Þá væri einfaldlega komin upp sú staða að allir þingmenn hefðu fulltrúa í ríkisstjórn. Hverju mundi það valda? Jú, þá hefði þingið valdið vegna þess að þá væri í raun sama hvaðan tillögurnar kæmu, þær væru allar jafnsettar gagnvart þingmönnum og meiri hluti þingmanna réði þar af leiðandi niðurstöðunni í hvert skipti en ekki flokksforusta ríkisstjórnarflokkanna.