139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu Framsóknarflokksins um samvinnuráð um þjóðarsátt undir miklum trommuleik utan af Austurvelli. Ástandið er orðið slæmt og hefur jafnvel ekki verið verra en nú, jól að nálgast og margar fjölskyldur hafa það slæmt.

Það var hreint með ólíkindum í fyrirspurnatíma fyrr í dag hvernig hæstv. forsætisráðherra svaraði spurningum sem var beint til hennar. Undir þessum dúndrandi trommuslætti var hún að öllu leyti ábyrgðarlaus gagnvart því ástandi sem ríkir. Að forsætisráðherra skuli koma fram með þær skoðanir að hreinlega ekki neitt sé ríkisstjórninni að kenna í samfélaginu er með ólíkindum. Þó er Samfylkingin búin að sitja í ríkisstjórn í rúm tvö ár. Það er eins og Samfylkingin gleymi því gjarnan.

Talandi um að hér þurfi samvinnu og sátt á milli stjórnmálaflokka á þingi fór hv. þingmaður Birkir Jón Jónsson fram á að forustumenn stjórnarflokkanna sætu í þingsal á meðan þessi þingsályktunartillaga væri rædd. Hvað sjáum við? Hér situr ekki hæstv. forsætisráðherra. Hér situr ekki hæstv. fjármálaráðherra. Þessir sömu aðilar komu fram í fjölmiðlum og þá sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra, sem greip hér fram í ræðu fyrr í dag, og sögðu að stjórnarandstaðan hefði hlaupið af fundinum í gær. Þetta er sjónarspil og leikrit. Þetta er leikrit sem þjóðin er sannarlega búin að fá nóg af. Það er kominn tími til, virðulegi forseti, að leiktjöldin falli.

Nú sitja reiknimeistarar, er okkur sagt, og reikna út hver staða heimilanna virkilega er og er það að sjálfsögðu mörgum, mörgum mánuðum of seint. Jafnvel á að koma fram með einhverja tillögu til bjargar heimilunum í næstu viku, eða svo er okkur sagt. Að mínu viti er verið að kaupa enn einn frestinn. Ríkisstjórnin er í því að kaupa sér fresti til að takast á við vandamálin. Meira að segja ráðherrarnir létu hafa eftir sér að nú kæmi til greina að endurskoða samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ríkisstjórn sem er hrædd við þegna sína gerir ekki góðverk fyrir nokkurn einasta mann. Ríkisstjórnin er að hvetja til þess að stjórnarandstaðan lýsi yfir vantrausti á hana. Hæstv. forsætisráðherra lagði það til í dag og trúi ég því að stjórnarandstaðan skoði þann möguleika mjög vel því að nú í haust voru lögð drög að þingsályktunartillögu um vantraust á þáverandi viðskipta- og efnahagsráðherra sem átti að leggja fyrir í byrjun september. Það fór svo að sú tillaga kom aldrei fram því að hæstv. ráðherra hafði látið af störfum þegar þing kom saman. Það þarf kannski eitthvað svipað að gerast nú.

Það er ekki eins og ríkisstjórnin hafi ekki mörg leiðarljós. Ríkisstjórnin hefur stöðugleikasáttmála. Í stöðugleikasáttmálanum kemur m.a. fram að það þurfi að stuðla að aukinni samvinnu og átti ákveðnum verkefnum að vera lokið fyrir 1. nóvember 2009, fyrir nákvæmlega ári. Þar var t.d. sagt að yrði hrint í undirbúning framkvæmdum vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom fram áðan og sagði að vinstri grænir gætu ekki staðið að þannig uppbyggingu eða atvinnuuppbyggingu hér á landi vegna þess að þeir væru á móti álverum. Samt er það í stöðugleikasáttmálanum. Það átti að klára þau verkefni sem voru byrjuð þegar stöðugleikasáttmálinn var endurnýjaður. Þetta á því ekki að koma neinum á óvart. En eins og annað sem þessi ríkisstjórn kemur nálægt er verkleysið algjört. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna.

Annað leiðarljós sem ríkisstjórnin getur haft sem fyrirmynd að stefnumálum sínum er bæklingur sem Samtök atvinnulífsins gáfu út í febrúar á þessu ári, Atvinna fyrir alla . Ríkisstjórnin gæti hreinlega tekið þennan bækling og gert stefnuna að sinni og þar með væru þeir komnir með Samtök atvinnulífsins með sér í þá vegferð. En það er ekki nokkur einasti áhugi fyrir því neins staðar. Hér gríp ég niður í bæklinginn Atvinna fyrir alla , með leyfi forseta:

„Samtök atvinnulífsins leita eftir samstöðu með öllum ábyrgum aðilum sem hafa metnað fyrir hönd íslensku þjóðarinnar til þess að ná viðsnúningi strax þannig að endurheimta megi fulla atvinnu og fyrri lífskjör …“

Framsóknarmenn eru svo sannarlega tilbúnir í þessa vegferð með Samtökum atvinnulífsins. Hér verður að koma af stað atvinnu á nýjan leik. Það hafa tapast á milli 22.000–25.000 störf síðastliðin tvö ár. Það er óásættanlegt hvernig ríkisstjórnin situr aðgerðalaus hjá, dregur stjórnarandstöðuna og aðra með sér inn í þann vítahring sem hún er komin í og gerir alla ábyrga.

Samningar eru lausir nú í haust. Hvað ætlar verkalýðsforustan t.d. að gera? Ætlar verkalýðsforustan að ganga með okkur framsóknarmönnum þá leið að endurreisa atvinnulíf og skapa hér traust? Það verður gaman að horfa upp á það því að samkvæmt skoðanakönnunum, sem dæmi, nýtur forusta verkalýðshreyfingarinnar jafnlítils trausts og borið er til Alþingis. Verkalýðsforkólfar hafa verið duglegir að koma fram í útvarpsviðtölum og fjölmiðlum og hafa gagnrýnt stjórnarandstöðuna — þeir gagnrýna stjórnarandstöðuna fyrir að vera ekki með tillögur. Hvernig er búið að snúa því við að ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar beri ekki lengur ábyrgð á framkvæmdarvaldinu? Hvers vegna er búið að búa til nýtt orð sem er stjórnmálastétt? Þá eru það allir 63 þingmennirnir sem hér sitja.

Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrr í dag að fólkið úti á Austurvelli væri ekki að mótmæla ríkisstjórninni, fólkið úti á Austurvelli væri að mótmæla Alþingi sjálfu og löggjafanum. Hvernig er hægt að vera svona fjarri raunveruleikanum? Hvernig er hægt að telja sjálfum sér trú um þessa vitleysu? Það er ríkisstjórnin sem hefur það vald í hendi sér að eitthvað sé gert og hér sé stefnu framfylgt. En ríkisstjórnin hefur ekki mátt í það. Ríkisstjórnin hefur ekki orku í að halda þeim boltum á lofti.

Ríkisstjórninni er tíðrætt um að nú séu erfiðir tímar. Það er enginn að neita því. Nú eru erfiðir tímar. En að sitja aðgerðalaus hjá í 24 mánuði á valdastólum og gera ekki neitt er sorglegt. Tvö ár hafa farið til spillis og það er hreint með ólíkindum að ástandið í samfélaginu skuli ekki vera verra en orðið er því að ekkert fer verr með fólk en atvinnuleysi. Ekkert fer verr með fólk en að standa í biðröð eftir mat. Desember er fyrirkvíðanlegur að mínu mati ef ekki verður gripið strax í taumana.

Tillagan liggur fyrir. Við framsóknarmenn leggjum til, með leyfi forseta:

„… að fela forsætisráðherra að koma á fót samvinnuráði, vettvangi stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila, til að ræða og leita leiða í anda þjóðarsáttar til langtímastyrkingar atvinnuvega landsins og efnahags þjóðarinnar til frambúðar. Í ráðinu sitji fulltrúar allra þingflokka, ásamt fulltrúum atvinnulífs, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja og Bændasamtaka Íslands.“

Þetta er mjög sanngjörn krafa. Hér er verið að kalla til borðsins þá aðila sem raunverulega eiga að semja um málið. Þessu ráði er ætlað að fara með tíu málaflokka sem óþarft er að telja upp, það er búið að því. Þetta er gert í þeim anda að fólk vinni saman að þeim brýnustu úrlausnarmálum sem við þurfum til að byggja nýtt og traust samfélag.

Kannski er eina leiðin til að ná þessari þingsályktunartillögu í gegn að leggja jafnframt til að sá sem fenginn verði til að stjórna þessari vinnu verði algjörlega hlutlaus aðili utan úr samfélaginu, einhver úr háskólasamfélaginu eða annar, því að vantraustið er svo mikið. Vantraust ríkisstjórnarinnar gagnvart stjórnarandstöðunni er svo mikið þrátt fyrir að ríkisstjórnin hamist alla daga við að draga stjórnarandstöðuna inn í verkleysi sitt.

Mig langar, með leyfi forseti, að lesa upp 8. punktinn, en hann er mikilvægastur og þarf að setja í forgang að mínu mati. Það er 8. punktur okkar í þingsályktunartillögunni sem heitir Sköpun stöðugleika og festu í rekstri ríkisins, með leyfi forseta:

„Það er mikilvægt fyrir Ísland að erlendir fjárfestar öðlist trú á jákvæðri þróun íslensks efnahagslífs. Þar er grundvallaratriði að skapa festu í stjórnsýslunni og eyða óvissu um efnahagsstöðu landsins og stefnu stjórnvalda, t.d. hvað varðar skatta og aðra þætti í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Í því efni og við lausn annarra vandamála sem þjóðin stendur frammi fyrir er mikilvægt að leitað verði aðstoðar færustu sérfræðinga á hverju sviði fremur en að leggja áherslu á að setja pólitíska samherja í áhrifastöður. Íslendingar þurfa nú að takast á við mörg úrlausnarefni sem þeir þekkja ekki af eigin reynslu. Það er því mikilvægt að stjórnvöld veigri sér ekki við að leita til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði. Fjölmargir erlendir fræðimenn og aðrir sérfræðingar hafa boðið Íslendingum aðstoð. Sumir eru með því að leita að verkefnum en aðrir líta á vandræði landsins sem áhugavert úrlausnarefni (Forseti hringir.) eða bera einfaldlega hag Íslendinga fyrir brjósti.“

Svo mörg voru þau orð, forseti. Þetta skulu vera einkunnarorð þessarar umræðu, þessarar þingsályktunartillögu.