139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Nú er að koma betur og betur í ljós að við erum að verða sammála um starfsemi og hlutverk þingsins, sem er gott. Þingmaðurinn nefndi að versta hlið þingmanna birtist í þingsölum, ég er ekki sammála því, og hann undrar sig á því hvers vegna við dveljum ekki lengur við mál sem við erum sammála um. Ástæðan fyrir því er sú að þau mál sem við erum sammála um afgreiðast sem lög frá Alþingi og þá er ekki neinn tími til að ræða þau frekar. En ég er sammála þingmanninum um að auðvitað þarf að hampa langtum meira þeim málum sem við erum sammála um en þeim sem eru í ágreiningi. Ágreiningur lýsir sér í lengri umræðum og það er það sem málið snýst um.

Mig langar til að spyrja þingmanninn. Í umfjöllun um 8. lið þeirrar tillögu sem hér er til umræðu er því lýst í greinargerð að fjölmargir erlendir aðilar vilji koma okkur til aðstoðar og þar er beinlínis hvatt til þess að ríkisstjórnin sæki sér erlenda aðstoð. Er þingmaðurinn ekki sammála því að þetta sé einmitt það sem ríkisstjórnin þurfi að gera núna, að leita sér þekkingar út fyrir landsteinana til að leysa þessi verkefni því að hún ræður ekki við þau sjálf?