139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:52]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir þessa innkomu. Ég veit ekki hvort ég get svarað þessu öllu hér og nú en ég vek athygli á því að það er að birta til í íslensku atvinnulífi nú þegar. Við sjáum 60 milljarða kr. framkvæmd álversins í Straumsvík og 20 milljarða kr. framkvæmd á Búðarhálsi. Ég tel að þetta geti orðið ísbrjótur fyrir erlent fjármagn inn í landið.

Það er nú svo að íslenskt orðspor á alþjóðavettvangi hefur skaðast. Íslensku bankarnir skulduðu 14.000 milljarða, 8.000 milljarða af þeim borguðu þeir ekki til erlendra lánastofnana. Það blasir við útlendingum þegar þeir ætla að eiga viðskipti við Íslendinga. Í þessu samhengi er gaman að geta þess að eignir lífeyrissjóðanna eru 2.000 milljarðar og bankainnstæður Íslendinga álíka miklar, 2.000 milljarðar, en 8.000 milljarðar er skaðinn sem blasir við útlendingum af viðskiptum við Íslendinga og þar liggur vandinn, reyndar ásamt Icesave.