139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:55]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gat þess að við gætum ekki verið án verðtryggingar með krónuna. Þetta er fullyrðing sem heyrist oft úr herbúðum Samfylkingarinnar en ég man hvorki eftir að hafa séð rannsóknir né hagfræðikenningar sem segja fyrir um þessi tengsl krónunnar og verðtryggingar. Hér er sennilega verið að vísa til þess að án verðtryggingar mundu fjármagnseigendur flýja landið. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki sé sársaukaminna fyrir skuldsett heimili að afnema verðtrygginguna og leggja einfaldlega skatt á útstreymi fjármagns.