139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um það nú eins og oft áður hversu mikilvægt sé að þingið taki sér a.m.k. það vald sem það hefur. Ég er algerlega sammála því í þeim úrlausnarefnum sem við stöndum frammi fyrir. Ef það á að verða raunverulegt samstarf sem skilar árangri þurfa menn að taka ákvörðun í því samstarfi út frá raunverulegri trú sinni á hvað sé best en ekki út frá því hvað forusta ríkisstjórnarinnar vill.

Skoðum sem dæmi þetta mál sem við höfum mest verið að ræða, almennar aðgerðir í skuldamálum. Bæði þingmenn Hreyfingarinnar og Framsóknarflokksins hafa barist mjög fyrir því máli en í öllum öðrum flokkum er líka fólk sem styður þá nálgun. Ég nefni sem dæmi hv. þm. Lilju Mósesdóttur úr Vinstri grænum, ég nefni hv. þm. Helga Hjörvar í Samfylkingunni og hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson í Sjálfstæðisflokknum. Sá meiri hluti sem kann að vera til staðar í þinginu fyrir þessu góða máli og öðrum góðum málum fær ekki notið sín vegna þess að það er forusta ríkisstjórnarinnar sem í raun ræður hvernig stór hluti þingmanna greiðir atkvæði og hvaða mál fá brautargengi. Þá velti ég fyrir mér hvort ekki mætti losa um þetta vald þingsins með myndun þjóðstjórnar þar sem allir flokkar yrðu þátttakendur í ríkisstjórn og þar af leiðandi væru engar tillögur öðrum tillögum æðri ef svo má að orði komast, allar tillögur yrðu jafnar gagnvart þinginu og meiri hluti réði einfaldlega niðurstöðunni. Þá held ég að við gætum gert marga góða hluti á skömmum tíma.