139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[11:58]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þennan punkt upp af því að það er eðlilegt að fólk spyrji: Er hægt að taka til baka skattahækkanirnar? Við leggjum áherslu á það til að koma súrefni til heimilanna og hins vinnandi manns og til þess að létta byrðum af atvinnustarfseminni. Þetta er hægt ef mönnum tekst að skapa ný störf. 12 þús. ný störf munu skila ríkinu 36 milljörðum kr. Og við eigum þá alveg eftir. Til allra frestuðu skattteknanna í séreignarsparnaðinum er líka hægt að sækja 70–80 milljarða kr.

Það sem er alvarlegt í tíðindum dagsins í dag er að allar hagvaxtarspár sem okkur berast eru um minni hagvöxt á næsta ári og þar af leiðandi færri störf en við horfðum til í upphafi þessa árs. (Gripið fram í.) Hvað þýðir það? Það þýðir að það þarf að skera meira niður eins og hæstv. ráðherra hefur áhyggjur af. Okkar tillögur eru um að snúa þessari þróun við, tryggja að (Forseti hringir.) hér verði hagvöxtur, að þannig komi ný störf. (Forseti hringir.) Það mun skila ríkinu tekjum. (Forseti hringir.)