139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[13:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að notfæra mér rétt minn samkvæmt þingsköpum til að koma að athugasemd sem í reynd er árétting. Hún tengist líka máli hv. þingmanns Péturs H. Blöndals. Hv. þingmaður Árni Þór Sigurðsson sagði að menn yrðu að fara með mikilli gætni gagnvart auðlindum. Hann tók mönnum vara fyrir því að kaupa tillögu Sjálfstæðisflokksins um að auka kvóta um 35.000 tonn án þess að hafa fyrir því full rök. Ég vil taka undir það.

Tillagan er byggð á skýrslu frá Hafró í fyrra sem sýnir fram á að ef menn fara upp í 35.000–40.000 tonn þá er alla vega ekki gengið á stofninn. Ég vil samt segja að ég tel að 35.000 tonn séu í það allra mesta. Miðað við þá reglu sem Hafró hefur sjálf sett og felur í reynd í sér 22% aflareglu en ekki 20% við ákjósanlegustu skilyrði, mætti segja að hættulítið væri að fara upp í 15.000 tonn. Ef farið væri yfir 20.000 tonn tel ég að við kynnum að vera í hættu komin. Ég er ekki að biðja hv. þingmann að svara þessu, (Forseti hringir.) ég vildi einungis kom þessari áréttingu að.