139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:35]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar og bið virðulegan forseta um að ítreka það við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gefa svör hvað varðar úthafsrækjuna. Um daginn var utandagskrárumræða sem ég tók þátt í og beindi að lokum einni spurningu til ráðherrans vegna þess að allar aðrar spurningar sem spurt hefur verið í þessu máli svara sér meira og minna sjálfar. Hún snerist um það að veiðarnar og sú aðferðafræði sem ráðherra og ráðuneyti notar hafa verið taldar ólöglegar og eru það mjög líklega. Því spurði ég hæstv. ráðherra hvenær ráðuneyti og ráðherra hygðust láta af lögbrotum og gefa út kvóta. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað og ég ítreka við hæstv. forseta að leita eftir svörum hjá hæstv. ráðherra.