139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

úthafsrækjuveiðar og svör við fyrirspurnum.

[15:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Herra forseti. Ég árétta ábendingu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Hér er um að ræða mjög alvarlegt mál. Hæstv. ráðherra svarar ekki eðlilegum spurningum. Uppi eru miklar efasemdir um að hæstv. ráðherra hafi farið að lögum. Hæstv. ráðherra hefur undir höndum lögfræðiálit í þá veru. Við sem sitjum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis höfum hvað eftir annað óskað eftir því að fá viðbrögð ráðuneytisins við þessu. Okkur hefur verið sagt að þeirra viðbragða sé að vænta innan skamms en það bólar ekkert á þeim enn þá.

Ég vil síðan vekja athygli á því að ákvörðun hæstv. ráðherra hafði í för með sér tjón fyrir ríkið upp á 700 millj. kr. Ákvörðun hæstv. ráðherra skaðar starfsemi Byggðastofnunar sem því nemur. Byggðastofnun er fyrir vikið hálflömuð. Hún er komin niður fyrir lögbundið lágmark í eigin fé, það veldur því að stofnunin er hálflömuð. Það er því mjög (Forseti hringir.) alvarlegur hlutur sem hæstv. ráðherra verður að taka alvarlega og svara þingmönnum þegar hann er spurður.