139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Reykjavíkurflugvöllur.

90. mál
[17:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, að vel má vera að Reykjavíkurflugvöllur taki einhvern tímann upp á því að flytja sig til Keflavíkur en það er þá hans ákvörðun eða þeirra sem nota flugvöllinn og vilja þá komast nær millilandafluginu. En það er önnur saga. Ég held að yfirgnæfandi meirihlutavilji sé í landinu um að halda flugvellinum í Reykjavík. Það er til hagsbóta fyrir alla sem nota flugsamgöngur að jafnaði. Ég vona að flugvöllurinn eigi langa framtíð í Reykjavík.

Ég tek undir að aðstaðan sem farþegum er búin er ekki viðunandi. Við þurfum að fá botn í þau mál hvað varðar fyrirhugaða samgöngumiðstöð. Boltinn er hjá stjórnvöldum í Reykjavík. Ég vonast til að niðurstaða liggi fyrir í viðræðum milli ríkisins og borgarinnar hið allra fyrsta.