139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég deildi eftirvæntingu með mörgum Suðurnesjamönnum í morgun eftir að fá fréttir af fundi ríkisstjórnarinnar suður með sjó. Ég átti von á einhverju bitastæðu, einhverjum skilaboðum um raunhæfa uppbyggingu atvinnuvega á svæðinu. En hvað hafði ríkisstjórnin þessu fólki að færa, og okkur þjóðinni? Það á að skoða flutning á starfsemi Landhelgisgæslunnar sem er algerlega á byrjunarreit. Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forsætisráðherra, uppgötvaði það og segir í viðtali við Morgunblaðið að taka þurfi atvinnumálin á Suðurnesjum föstum tökum. Og það var samþykkt á ríkisstjórnarfundi þessum þarna suður með sjó að skipa nefnd um málið, koma reyndar á fót safni tengdu dvöl Bandaríkjahers hér. Það var það sem kom, og ekki farið gegn því að gamli herspítalinn yrði notaður sem uppbygging á sjúkrahúsþjónustu í framtíðinni. Það var ekkert minnst á ECA og það var ekkert minnst á gagnaver sem hv. þm. Magnús Orri Schram gerði að umtalsefni, og að góðu.

Fyrir nokkrum mánuðum stóðu helstu væntingar ríkisstjórnarflokkanna og hæstv. ríkisstjórnar til þess að efla starfsemi gagnavera á Íslandi og með miklum erfiðismunum fór frumvarp um fjárfestingarsamning Verne Holdings gagnaversins í gegnum þingið í vor. Það hefur ekkert gerst síðan þó að allan síðasta vetur hafi legið fyrir að slík starfsemi gæti ekki skotið rótum hér nema tekið yrði á virðisaukaskattsmálunum, svo einfalt sem það er, til að koma þessum fyrirtækjum til jafnræðis í samkeppni við þau fyrirtæki sem þau eru að keppa við í Evrópu. Lóðin stendur auð, tilbúin til framkvæmda, fjárfestarnir hanga enn á skipinu, eins og formaður stjórnar Verne Holdings sagði við okkur á fundi iðnaðarnefndar í morgun. Fjárfestarnir hanga enn þá á þessu þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekki greitt þessu leið. Þarna fengju um 100 manns vinnu til lengri tíma og á annað hundrað manns við uppbygginguna. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Þetta er atvinnustefna vinstri stjórnarinnar í hnotskurn. Þetta er það sem Samfylkingin (Forseti hringir.) styður, að Vinstri grænir standi í veg fyrir því að hér komist eitthvað áfram í atvinnumálum þessarar þjóðar.