139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[17:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög gott að hæstv. fjármálaráðherra taki dæmi um Svíþjóð sem gósenland, enda eru skattar að lækka þar undir vaskri stjórn hægri manna í Svíþjóð. Tökum dæmi um Danmörku. Þar er nýkomin út skýrsla sem sýnir að 17% af danska hagkerfinu eru svört atvinnustarfsemi. Af hverju skyldi það vera? Það er kannski vegna þess að á hinum Norðurlöndunum hefur það verið þannig, og allir vita það, að skattarnir þar eru miklu, miklu hærri. Ef hæstv. fjármálaráðherra vill í sífellu bera sig saman við lönd þar sem hæstu skattarnir eru þá verði honum að góðu, en það er ekki það sem ég get tekið undir.

Og varðandi þær tölur sem hann nefndi áðan og að fræðimenn væru búnir að sýna fram á að þau í ríkisstjórninni væru að gera allt saman rétt, þá bendi ég á að þær tölur sem þarna er um að ræða eru væntanlega tölur frá því áður en skattkerfinu var breytt, vegna þess að skattkerfinu var ekki breytt fyrr en í fyrra og ekki er Stefán Ólafsson og co. að reikna með tekjunum sem fólk er að greiða akkúrat núna. Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að fara aðeins ofan í gögnin áður en hann fer að guma af þessu.